1. febrúar er Dagur kvenfélagskonunnar

01.02 2018 - Fimmtudagur

Dagurinn í dag er Dagur kvenfélagskonunnar. Saga kvenfélaga er samofin sögu lands og þjóðar um langt árabil og leikur ekki vafi á mikilvægi þeirra en ekki einungis er félagsskapurinn hverjum hollur heldur það starf sem innt er af hendi í þágu samfélags síns. Við undirbúning 80 ára afmælis KÍ árið 2010 þótti stjórninni við hæfi að kvenfélagskonur ættu sinn eigin dag og þótti við hæfi að dagurinn sem kvenfélagskonur ákváðu yrði 1. febrúar, stofndagur Kvenfélagasambands Íslands. Á Vopnafirði er Kvenfélagið Lindin sem stofnuð var árið 1921 og hefur látið margt gott af sér leiða í gegnum árin sem kunnugt er. Núverandi formaður félagsins er Karen Hlín Halldórsdóttir.

 

Í fréttatilkynningu um stofnun dagsins kom eftirfarandi fram:

 

Kvenfélagasambandið var stofnað árið 1930 sem sameiningar og samstarfsvettvangur kvenfélaganna í landinu sem þá þegar voru orðin fjölmörg. Fyrsta kvenfélagið Kvenfélag Rípurhrepps var stofnað árið 1869.

 

Konur hafa síðan þá stofnað hundruð kvenfélaga með það að markmiði að bæta samfélagið, sérstaklega hvað varðar málefni barna, kvenna og fjölskyldna. Má segja að konur hafi með því tekið völdin í sínar hendur löngu áður en þær fengu aðgengi að stjórnkerfinu með kjörgengi og kosningarétti. Störf kvenfélagskvenna eru og hafa verið samfélaginu öllu afar mikilvæg þó ekki hafi þau alltaf farið hátt eða mikið farið fyrir þeim í fjölmiðlum.

 

Það er því löngu tímabært að sérstakur dagur sé helgaður kvenfélagskonum og hefur formannaráð Kvenfélagasambands Íslands einhliða lýst 1. febrúar, ár hvert, „Dag kvenfélagskonunnar.” Kvenfélagasambandið hvetur allar kvenfélagskonur til að halda daginn hátíðlegan og landsmenn alla til að heiðra kvenfélagskonur þennan dag.

 

Eftir að KÍ hafði lýst 1. febrúar dag kvenfélagskonunnar hófst vinna við að festa hann í sessi. Meðal þess sem gert hefur verið til þess er að haft var samband við þá aðila sem gera dagatöl og dagbækur og þess farið á leit að þeir geti dagsins í sínum dagbókum og dagatölum. Kvenfélög, kvenfélagskonur og landsmenn eru hvött til að muna eftir deginum og fjölmiðlar eru hvattir til að minnast hans á einhvern hátt.

 

Kveðjur hafa t.a.m. verið lesnar í RÚV ár hvert frá stofnun dagsins þar sem sveitarfélög senda kveðjur til kvenfélagskvenna með þakklæti fyrir framlag þeirra til samfélagsins og Kvenfélagasambandið sendir kveðjur til kvenfélagskvenna og hvetur konur til að leggja kvenfélaögunum lið.

 

Á Formannaráðsfundi 2016 kom upp hugmynd að Gylltum febrúar, í tilefni að degi kvenfélagskonunnar 1. febrúar og var „gyllta“ nefndin stofnað til að koma með hugmyndir að því hvernig nýta mætti febrúarmánuð til að vekja athygli á störfum kvenfélaganna.

 

Fá kvenfélagskonur nær og fjær sendar kveðjur í tilefni dagsins.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir