Ögrun í Vopnafirði – útivist og upplifun

02.02 2018 - Föstudagur

Á fundi sveitarstjórnar í gær kynnti Bjarney Guðrún Jónsdóttir verkefni sitt Ögrun í Vopnafirði – útivist og upplifun í fjölbreyttri náttúru – fyrir sveitarstjórn. Hafði Bjarney þegið boð um að koma með kynningu sína á fundinn og bauð upp á glærusýningu sem inniheldur auk texta stórgóðar myndir Jóns Sigurðarsonar. Myndirnar hafa skýran tilgang því þátttakendum er ætlað að mynda á þeim stöðum sem tilgreindir eru. Tíðindamaður hefur fengið aðgengi að glærunum og er fréttin samantekt af því sem á þeim stendur en skemmst er frá því að segja að nefndarmenn lýstu yfir ánægju sinni með hugmyndina og vilji til að styðja svo sem kostur er.

 

Grunnhugmynd Ögrunar er skilgreind í þremur erfiðleikastigum og er um hringför að ræða í öllum tilfellum. Hver hringur inniheldur 8 staði sem hlutaðeigandi þarf að finna og mynda.

 

Hringirnir eru:

  • Bronshringur: Fjölskyldumiðaður og fer fram innan bæjarmarka kauptúnsins
  • Silfurhringur: Meðalerfiður hringur í sveitum Vopnafjarðar sem ætti að henta flestum
  • Gullhringur: Krefjandi verkefni, til dæmis fjallgöngur

 

Í boði er hvoru tveggja kapphlaup og ljósmyndakeppni Svo sem nöfnin bera með sér er annars vegar áherslan á hraða og útsjónarsemi, hins vegar ljósmyndun þar sem áherslan er á upplifun og föngun augnabliksins með ljósmynd eða ljósmyndaseríu. Hugmyndin að baki Ögrunar felst í áskorun um að skoða og upplifa náttúruna í heimabyggð með fjölbreyttum verkefnum. Hið sama gildir um ferðamanninn nema hvað hann er gestur á fallegum stað. Mun verða unninn bæklingur þar sem fjöldi hreyfitengdra verkefna verða í boði, svo sem fjöruferðir, gjallgöngur, lautar- og sundferðir, útilega í heimabyggð, léttar gönguferðir o.fl.P9274918.JPG

 

Í framtíðarsýn Bjarneyjar er hugmyndin að bjóða upp á pakka með gistingu, mat og ferðatengdri útivist hér í Vopnafirði sem verður markaðssett bæði innan og utan lands. Í hugmyndinni felst að fá hingað fleiri ferðamenn sem kunna að njóta þess sem við höfum upp á að bjóða tengt útivist og hreyfingu. Myndir Jóns sýna m.a. Drangann, Skjólfjörur, Fuglabjargarnes, Krossavíkurfjall, Dalsá, Búr, Þverárgil og Selárfoss.

 

Í verkefni sem þessu er þörf á að leita samstarfs við ýmsa aðila, þar á meðal landeigendur. Fyrsta skrefið á þeirri leið er að fá samþykki þeirra. Líklega þekkja engir betur en þeir hvar faldar perlur kann að vera að finna eða aðgengi að þeim. Væntir Bjarney að verkefnið verði atvinnuskapandi en fyrst í stað liggur vinnan á hennar herðum. Þjónustuaðilar munu njóta góðs af og með þátttöku sinni hafa Vopnfirðingar tekið skref í átt til bættrar heilsu, sbr. Heilsueflandi samfélag, auk þess sem fjölskyldan nýtur samverunnar.

 

Sótt hefur verið um styrk í Uppbyggingarsjóð Austurlands auk þess sem leitað verður stuðnings sveitarfélagsins og fyrirtækja staðarins. Í bæklingi Ögrun tengdri verða vörumerki stuðningsaðila. Stefnir Bjarney ótrauð áfram að settu marki og óskandi að henni lukkist ætlunarverk sitt, sem tíðindamaður er sannfærður um, en bæði heimamenn og ferðaþjónustan kalla eftir aukinni afþreyingu.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir