Viðauki við samning um félagsþjónustu og barnavernd

05.02 2018 - Mánudagur

Félagsmál Vopnafjarðarhrepps heyra undir félagsmálanefnd Fljótsdalshéraðs og þar á sveitarfélagið einn fulltrúa, Ásu Sigurðardóttur. Hér að neðan er nánar tilgreind samsetning félagsmálanefndar. Á fundi sveitarstjórnar sl. fimmtudag var til umfjöllunar viðauki við samning um félagsþjónustu og barnavernd og samningurinn meðal fylgigagna fundargerðarinnar. Svo sem fram kemur í knöppum texta fundargerðar gerði Ása nánari grein fyrir málinu og þá einkum því verklagi sem kallað hefur verið „sænska módelið“ sem felur í sér ítarlegt samstarf við grunn- og leikskóla aðildarsveitarfélaganna. Var á fundinum samhljóða samþykkt þátttakan í innleiðingu módelsins.

 

Þegar talað er um ítarlegra samstarf er m.a. átt við aukna viðveru í skólum og vinnu í teymum að málefnum einstakra barna og fjölskyldna þeirra. Lykilhugtök eru snemmtæk íhlutun og fyrirbyggjandi aðgerðir þannig að sérfræðingar og skólastarfsmenn komi að málefnum barna áður en vandi þeirra verður mikill og krefst meiri vinnu, fjármagns og kostnaðar í félagslegri vanlíðan og lakari uppvaxtarskilyrðum barna, segir í fyrsta lið viðaukans.

 

Með viðaukanum er aukin áhersla á forvarnir hvar komið er að málefnum barna á grundvelli félagsþjónustulaga, barnalaga og samningi SÞ um réttindi barna og fatlaðra. Mál á grundvelli barnaverndalaga verða einnig unnin í teyminu og aukin áhersla á sjálfseflingu málsaðila og samvinnu við skóla og aðra sem koma að málefnum viðkomandi barna og fjölskyldu. Með auknu samstarfsi fylgir meiri viðvera sérfræðinga í nærumhverfi barnsins með áherslu á að þjónustan færist meira í heimabyggð og styrki þar með nærumhverfi barnsins til þess að styðja við það og fjölskyldu þess.IMG_1577.JPG

 

Gengur sænska leiðin út frá að börn eigi rétt á að lifa sem „eðlilegustu“ lífi. Það að vera vistaður utan heimilis er verulegt inngrip í líf barns og hefur varanleg áhrif á tilfinningalegan og sálrænan þroska barns. Eitt aðalinntakið er að ná til barnafjölskyldna áður en vandinn verður alvarlegur svo sem fyrr greinir og felst m.a. inngripi óháð greiningu hlutaðeigandi barns. Gert er ráð fyrir innleiðingu módelsins skólaárið 2018-2019 og innan skamms verður settur saman stýrihópur sem móti og leiði innleiðingarferlið.

 

Um félagsmálanefnd Fljótsdalshéraðs: Nefndina skipa 5 fulltrúar og jafnmargir til vara. 3 aðalfulltrúar og 2 varafulltrúar eru kosnir af bæjarstjórn Fljótsdalshérað, 2 aðalfulltrúar eru tilnefndir af bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar annars vegar og sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps hins vegar. Sveitarstjórnir Djúpavogshrepps, Borgarfjarðarhrepps og Fljótsdalshrepps tilnefna hver um sig 1 varafulltrúa. Nefndin hefur umsjón með starfsemi Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs, en starfsvæði félagsþjónustunnar nær yfir öll framangreind sveitarfélög samkvæmt samningum við þau.

 

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir