Loðnukvótinn 285 þúsund tonn

07.02 2018 - Miðvikudagur

Hafrannsóknarstofnun leggur til að heildarkvótinn á loðnuveríðinni verði 285 þúsund tonn. Það þýðir að 77 þúsund tonn bætast við upphafskvóta þann sem gefinn var út í haust. Í framhaldi þeirra mælinga sem gerðar voru á stærð loðnustofnsins í september og október, var úthlutað 208 þúsund tonna kvóta. Þá kom fram að ráðgjöfin yrði endurskoðuð í ljósi niðurstaðna úr mælingum síðar um veturinn 2018. Þeim mælingum lauk í liðinni viku. Í viðtali á vef HB Granda hf., www.hbgrandi.is, segir Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri uppsjávarsviðs félagsins að niðurstaða mælinga Hafró sé mikil vonbrigði fyrir útgerðina og þeir sannfærðir um að heimila hefði mátt meiri veiði. Er kvótinn nú 14 þúsund tonnum minni en á sl. ári.

 

Rannsóknasvæðið í janúar var landgrunnið og landgrunnsbrúnin frá Grænlandssundi, austur með Norðurlandi og út af Austfjörðum. Gerðar voru tvær mælingar á veiðistofninum. Um 849 þúsund tonn af kynþroska loðnu mældust í fyrri yfirferðinni, en í þeirri síðari mældust um 759 þúsund tonn. Gildandi aflaregla byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar með 95% líkum. Samkvæmt samantekt endurtekinna bergmálsmælinga er metið að hrygningarstofn loðnu hafi verið 849 þúsund tonn 15. janúar. Þá er tekið tillit til þess afla sem hafði veiðst þegar mælingar voru gerðar.

 

Bæði uppsjávarveiðiskip HB Granda,Venus NS og Víkingur AK, hafa verið að loðnuveiðum með góðum árangri í janúar en þau hættu bæði á loðnu í síðustu viku vegna óvissu um framhaldið.P7094893.JPG

 

„Bæði skipin eru nú farin til kolmunnaveiða. Á þessari stundu liggur ekki fyrir ákvörðun um hvernig framhaldi loðnuveiða verður háttað,“ sagði Garðar í viðtalinu sl. mánudag en hann segist hafa vonast til að ágætlega heppnuð haustmæling Hafrannsóknarstofnunnar yrði staðfest með sambærilegri mælingu nú í vetur.

 

Garðar segir að útgerðarmenn standi með vísindamönnum í þeirri vegferð að ná sem best utan um stöðu loðnustofnsins og tryggja að nýting hans sé með ábyrgum hætti. „Það verður hins vegar að eiga sér stað málefnalegt samtal um hvort núverandi óbreytt aflaregla sé best til þess fallin að tryggja hámarks afrakstur með ábyrgum hætti. Ég geri ráð fyrir því að þetta samtal muni eiga sér stað á komandi mánuðum. Verkefnið núna er að fara yfir það með Hafrannsóknastofnun hvaða kostir eru í stöðunni. Trú okkar er að tilefni sé til að leyfa meiri loðnuveiði, ákvörðun um slíkt verður þó eingöngu tekin ef niðurstaða frekari mælinga gefur tilefni til þess,“ sagði Garðar Svavarsson að lokum. Er óskandi að rannsóknir komandi vikna og mánaða á uppsjávarfiski gefi ástæðu til bjartsýni.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir