Almenn ánægja með Mannamót

09.02 2018 - Föstudagur

Kynningarvettvangur markaðsstofa ferðaþjónustu landsbyggðanna, Mannamót, var sett upp þann 18. janúar sl. í flugskýli Ernis á Reykjavíkurflugvelli. Samstarfsfyrirtæki markaðsstofanna eru í forgrunni vinnustofunnar og voru yfir 200 sýnendur að þessu sinni, þar af 26 frá Austurlandi og hafa aldrei verið fleiri. Á vef Austurbrúar, www.austurbru.is, er um Mannamót fjallað og segir María Hjálmarsdóttir hjá Austurbrú hafa mikinn samhug ríkt meðal Austfirðinga, samheldni þeirra hafi vakið athygli. Tilgangurinn helgar meðalið, þ.e. að kynna landsbyggðarfyrirtæki fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu. Mun það hafa vakið eftirtekt sú mikla gróska sem er að finna utan þéttbýlis suðvesturhornsins.

 

Samstaða Austfirðinga kom m.a. fram í framsetningu þeirra á kynningarsvæði sínu, sameiginleg útlit sem prýddi svæðið og er ágætis tákn um hvað ferðaþjónustan eystra hefur náð góðum árangri í samvinnu á síðustu árum. Titill verkefnisins, Áfangastaðurinn Austurland, er grundvallaður á þeirri forsendu að fólk vinni saman að eflingu landshlutans sem áfangastaðar og búsetukosts.

 

Greinir María frá að undir lok sýningardags, svona til að toppa daginn og gleðja gesti, var motta í öllum regnbogans litum lögð á gólfið og var hönnunin innblásin af „Regnbogagötunni“ á Seyðisfirði. „Og eitt af því sem einkenndi árið var hvað Regnbogagatan var vinsælt myndefni – það langvinsælasta á Austurlandi. Fólk virðist ekki yfirgefa Seyðisfjörð öðruvísi en að láta taka mynd af sér þarna. Við ákváðum því að gera gólfrenning sem á sinn skrautlega hátt dró að sér jákvæða athygli undir lok sýningarinnar, líkt og gatan gerir í raun og veru,“ sagði María gjörninginn.IMG_1574.JPG

 

Stöldrum aðeins við Norðurgötuna alias Regnbogagötuna á Seyðisfirði. Við götuna standa fáein gömul hús í misgóðu ástandi. Skörð hafa verið höggvin í götumyndina þar eð hús hafa horfið. Malbikið er illa farið og gangstéttar eru engar. Á götuna miðja voru lagðar ljósgráar hellur sem marka gönguleiðina og eru fráleitt fallegar. Við hvorn enda götunnar eru á hinn bóginn tvær fagrar byggingar, annars vegar Hótel Aldan, hins vegar Bláa kirkjan. Margir bæir á Íslandi státa af ekki síðri götumynd en Norðurgatan á Seyðisfirði skyldi maður ætla.

 

Snilldin er á tíðum fólgin í einfaldleikanum. Hugmynd fæðist, hún lögð fram og reynist nógu góð til að verða raungerð. Litum dauðar götuhelllurnar og sjáum til hvað gerist! Einföld, ódýr, snjöll, djörf og frumleg leið til að brjóta upp litlausan flötinn. Varðar einu hvort hugmyndin tengdist Gay Pride eður ei, glaðir skyldu litirnir vera. Og hvað gerist? Heimamenn jafnt sem gestir kættust þegar í stað, mynduðu götuna og hver myndin af annarri rataði á Veraldarvefinn. Gatan sem menn tóku tæplega eftir áður er orðin einn helsti „ljósmyndaáfangastaður“ Íslands.

 

Nú verður ekki gerður samanburður á fjölda ferðamanna sem sækir Seyðisfjörð heim og kemur hingað til Vopnafjarðar né heldur ástæður þess að svo miklu munar. Hins vegar má leyfa sér að velta vöngum yfir hvað við gætum gert með einföldum, ódýrum og frumlegum hætti sem vakið gæti athygli á okkar sveitarfélagi. Við vitum að Vopnafjörður hefur upp á margt að bjóða. Eitt og annað fæddist á málþinginu „Veljum Vopnafjörð“. Hver veit hvað kann að gerast komi fólk saman, láti hugann reika en líkt og gerðist á Seyðisfirði er oft hið einfalda, jafnvel augljósa, lykillinn að einhverju einstöku.

 

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af „Regnbogagötunni“ fyrir og eftir regnboga – og af glöðum Austfirðingum á Mannamóti. Allar fengnar á Veraldarvefnum.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir