Blómasala, messa og bíó á konudag

16.02 2018 - Föstudagur

Næstkomandi sunnudag er konudagur og markar upphaf Góu og stendur ávallt upp á sunnudag í 18. viku vetrar. Konudagur markar sum sé upphaf Góu rétt eins og fyrsti dagurinn í Þorra er bóndadagurinn. Á konudag minntust bændur og eiginmenn húsfreyjunnar með því að fagna góu sem færir með sér vaxandi birtu og vorinnganginn. Eitt og annað er í boði þennan dag á Vopnafirði. Þannig býður Einherji upp á blómasölu í Vopnafjarðarskóla milli klukkan tíu og tólf, klukkan 15:00 er kaffihúsamessa í Kaupvangskaffi og kl. 17:00 verður heimildarmyndin 690 Vopnafjörður sýnd í Miklagarði.

 

Blómasala Einherja hefur verið órjúfanlegur hluti af konudeginum á Vopnafirði um árabil og má vænta þess að karlar muni halda uppteknum hætti og færa elskunni sinni blóm á konudegi. Er sölutorgið opið milli kl. 10-12 og verður heitt á könnunni að vanda.

 

Kaffihúsamessan hefst sem fyrr greinir kl. 15 en klukkustund áður opnar Kaupvangskaffi dyr sínar fyrir gestum, kaffi og með því í boði. Að vanda mun Karlakór Vopnafjarðar annast sönginn í konudagsmessu og Þuríður Björg sóknarprestur þjónar. Er ávallt létt yfir messugjörðinni og formið óhefðbundið.

 

Amanda í 690 V.jpgHeimildarmyndin 690 Vopnafjörður. Vopnafjarðarhreppur býður íbúum í bíó kl. 17 í félagsheimilinu Miklagarði en sem kunnugt er fjallar heimildarmyndin um daglegt líf á Vopnafirði á árabilinu 2012-2017. Forsýning myndarinnar var í haust og voru viðbrögð blendin þótt engum dyldist vandað handbragðið. Gerði Karna lítilsháttar breytingar á myndinni og er sú sem sýnd verður endanlega útgáfa hennar. Er viðunandi sýningarbúningi lofað en myndin hefur verið sýnd í Bíó Paradís og í Frakklandi og fer til BNA innan skamms. Síðar í vor til Prag og Parísar auk fleiri staði. Er gleðilegt að greina frá því að myndin hefur hlotið lof þar sem hún hefur verið sýnd. Er Karna til viðtals að sýningu lokinni. 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir