Konudagur í brennidepli

19.02 2018 - Mánudagur

Í gær var konudagur samkvæmt gamla tímatalinu og fyrsti dagur í Góu sem markar næstseinasti mánuð vetrarmisseris. Á Vopnafirði var eitt og annað gert í tilefni dagsins svo sem sagt var frá hér fyrir helgi að myndi verða. Þannig bauð Einherji upp á sölu blóma í grunnskólanum að morgni konudags, kaffihúsamessa haldin í Kaupvangskaffi um miðjan dag og kl. 17 sýning á endurgerðri heimildarmyndinni 690 Vopnafjörður.

 

Blómasöludrengir Einherja tóku vel á móti viðskiptavinum sínum og svo fór að allir vendir sem til sölu voru seldust. Eru Einherjamenn kaupendum innilega þakklátir og horfa björtum augum til næsta konudags sannfærðir um að blómin hafi glatt hlutaðeigendur líkt og blómin sem Kauptún seldi hafa án efa gert. Messuformið er brotið upp í kaffihúsamessu og mælist vel fyrir. Sr. Þuríður Björg hélt utan um viðburðinn og fórst það vel úr hendi. Karlakórinn söng án söngstjóra síns Stephen Yates sem glímt hefur við veikindi og var Þuríði til hans hugsað í bænagjörð sinni.

 

IMG_2154.JPGBíósýningin var vel sótt og þótti gestum þær breytingar sem á myndinni voru gerðar til bóta en þeir sem tjáðu sig við Körnu að sýningu lokinni lýstu yfir mikilli ánægju með myndina. Það var athyglisvert að heyra Körnu greina frá því að sýningargestir syðra og erlendis hafi haft á orði að myndin fjallaði ekki einungis um Vopnafjörð heldur Ísland og að myndin gæti allt eins verið lýsing á smábæ í Frakklandi. Kvaðst fólk er til þekkti smásamfélaga eiga auðvelt með að samsama sig frásögninni en myndin hefur vakið athygli og lof. Er nú svo komið að eftir myndinni er kallað á kvikmyndahátíðir en gríðarleg samkeppni ríkir um að þátttöku á helstu kvikmyndahátíðum.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir