Ögrun í Vopnafirði kynnt landeigendum

01.03 2018 - Fimmtudagur

Ögrun Bjarneyjar Guðrúnar var til kynningar fyrir landeigendum sl. þriðjudagskvöld í Kaupvangskaffi og var mæting þeirra með ágætum. Kynnti Bjarney verkefnið sitt fyrir sveitarstjórn þann 01. febrúar sl. og var vel tekið. Í knöppu máli er grunnhugmyndin skilgreind í 3 erfiðleikastigum og er um hringför að ræða í öllum tilfellum. Hver hringur inniheldur 8 staði sem hlutaðeigandi þarf að finna og mynda.

 

Hringirnir eru:

  • Bronshringur: Fjölskyldumiðaður og fer fram innan bæjarmarka kauptúnsins
  • Silfurhringur: Meðalerfiður hringur í sveitum Vopnafjarðar sem ætti að henta flestum
  • Gullhringur: Krefjandi verkefni, til dæmis fjallgöngur

 

Að kynningu lokinni svaraði Bjarney framkomnum fyrirspurnum en fundargestir voru sammála um að verkefnið hafi verið vel kynnt í máli Bjarneyjar stutt af glærusýningu. Kom fram í máli Bjarneyjar að gerður verði bæklingur sem dreift verður í hvert hús sveitarfélagsins. Kynnt var var merki Ögrunar unnið af Jódísi Evu. Tíðindamaður sat fundinn og punktaði niður nokkrar spurningar og svör.

 

Hvernig verður kynningu verkefnisins háttað utan Vopnafjarðar, mun það nýta sér Visit-vef sveitarfélagsins?

Kynning verkefnisins verður fyrst í stað í gegnum bæklinginn sem verið er að vinna í samvinnu við Jódísi Evu. Hugmyndin er að opna eigin vef um verkefnið en það er eðlilegt að nýta sér þá möguleika sem til staðar eru, svo sem Visit-vefinn.

 

Af hverju Ögrun í fremur en á Vopnafirði?

Málhefðin segir fremur á en í en á það var bent að forsetningin á eigi þá fremur við þéttbýlið en í þegar viðkomandi er í firðinum utan þess. Í huga Bjarneyjar, sem hafði sannarlega leitt hugann að þessu, er viðkomandi í Vopnafirði verandi þátttakandi í Ögruninni og taldi það tengja betur við staðinn.IMG_2399.JPG

 

Á Ögrun sér fyrirmynd eða hugmyndin alfarið Bjarneyjar?

Hugmyndin er hennar sem benti á að fátt er nýtt undir sólinni, þannig hafi hún sett fram hugmyndir um hjólreiðakeppni í firðinum hafandi fyrirmyndir af slíku. Til að svara fyrirspurninni kvaðst Bjarney hafa haft hina erlendu Amazing Race að einhverju leyti í huga til að byrja með en eins og verkefnið er sett fram er það alls óskylt þeirri keppni. Fremur að Ögrun byggist á eigin hugmynd um stóran ratleik og hún kynnti fyrir nokkrum árum. Hugmyndin er að leikurinn sé að mestu sjálfbær.

 

Verkefnið fór af stað í fyrra, hvernig gekk?

40-50 manns tóku þátt í leiknum á síðastliðnu sumri. Fékk Bjarney ýmsar gagnlegar ábendingar, t.a.m. að skil verði gerð á milli þess að keppa í tíma og njóta. Þetta hafði hún í huga en það skiptir mestu máli að hver og einn taki þátt á eigin forsendum. Boðið verður upp á kapphlaup tiltekinn dag næsta sumar með verðlaunum í boði. Til að setja hlutina í samhengi tók það þau hjónin 50-60 klukkustundir að mynda þá staði sem Ögrun varðar og var þá öll önnur vinna eftir við þær.

 

Ertu að leita að öðrum stöðum en þegar eru komnir?

Já, leitað er nýrra staða enda er öruggt að hér eru margar faldar perlur. Boðað er til þesssa fundar til að fá tillögur um fleiri staði um leið og samþykkis er leitað að fyrir þeim sem þegar hafa verið kynntir. Gullhringinn fór enginn á sl. sumri en Silfurhringinn kláraði einn á 8 klukkustundum með því að stoppa lítið sem ekkert. Eru allir staðir gps-merktir sem skráðir voru og auðveldar þátttakendum og skipuleggjendum.

 

Keppni og ferðaþjónusta er tvenns konar form eða hvað?

Ekki endilega, hver og einn metur hvernig hann vill haga ferð sinni. Silfurhringinn sem dæmi geta hópar farið og Gullhringurinn gæti verið fyrir ævintýrafólk sem er að leita að einhverju nýju. Hægt væri að bjóða upp á leiðsögn kjósi hópur það. Þess má geta að íbúi hér til 40 ára fór Silfurhringinn á sl. sumri og var að upplifa marga staði í fyrsta sinn á ævinni. Hvatinn að ferðinni var Ögrunin og er dæmi um hér er fólk sem búið hefur lengi sem á eitt og annað eftir að upplifa.

 

Kostnaður við verkefnið?

Kostnaðaráætlunin er upp á 1100 þúsund og varðar upphaf verkefnisins. Fékkst 400 þús. úr Uppbyggingarsjóði, 300 þús. frá sveitarfélaginu – fjármunir og vinna – auk minni styrkja s.s. gegnum vörumerki í bæklingnum. Um er að ræða laun Bjarneyjar, hönnun bæklings, prentkostnað, vefsíðugerð o.fl. Var Bjarney bent á að leita í Lýðheilsusjóð landlæknisembættisins.

 

Tekjur einhverjar?

Það var 2 þús. kr. þátttökugjald á lið í fyrra en þessi mál þarf að skoða nánar.

 

Markaðssetning erlendis?

Ekki að sinni. Láta næsta sumar líða og sjá hvernig til tekst en það er ljóst að fara inn á erlendan markað er gríðarmikið og flókið verk að vinna.

 

Fram fór umræða um verkefnið, lýstu gestir yfir ánægju sinni með það og fram komu ýmsar hugmyndir sem vert er að skoða. Kvaðst Bjarney sjá fyrir sér að þróa mætti hugmyndina áfram þannig að boðið yrði upp á þemuár, s.s. væri fjölskyldan í fyrirrúmi eitt sumarið, strandlengjan næsta, árnar, heiðarnar o.s.frv. 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir