Karlakór Vopnafjarðar á söngmóti á Akureyri

09.03 2018 - Föstudagur

Karlakór Vopnafjarðar tók þátt í söngmóti á Akureyri laugardaginn 24. febrúar sl. en allt frá árinu 2005 hefur Karlakór Akureyrar Geysir haldið mót þetta undir því skemmtilega heiti „Hæ! Tröllum á meðan við tórum“. Hafa yfirleitt 3 kórar sungið með þeim en að þessu sinni voru þeir 2, annars vegar okkar kór og hins vegar Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps. Vann sá kór frækinn sigur í kórakeppni Stöðvar tvö í haust. Segir á heimasíðu Karlakórs Akureyrar Geysis að nafnið, „Hæ! Tröllum!“, tengist þeirri ímynd sem þetta fyrirbærinu, karlakór, er í huga margra og má til sanns vegar færa.

 

Daginn tóku kórfélagar og makar snemma, fyrir lá æfing hjá kórunum og mökum bauðst óvissuferð um höfuðstað Norðurlands. Það stóð raunar glöggt með þátttöku Karlakórs Vopnafjarðar því Stephen kórstjóri veiktist illa með þeim afleiðingum að ekkert var æft um 2ja vikna skeið. Ákvörðun var tekin að standa við gefið loforð, Finnur úr hópi kórfélaga tók að sér að stýra einni æfingu og Skarphéðinn kórstjóri Húnvetninga tók því vel að stjórna kórnum nyrðra. Þar skyldi sungið til heiðurs Stephen.

 

IMG_2273.JPGAð æfingu lokinni var haldið að Norðurslóðasetrinu en því tengdu er matstofa sem sjálfur Alli Bergdal alias Skralli trúður stjórnar. Þar bauðst körlum og konum úrvalsgóður mjólkurgrautur með slátri – matur sem stóð lengi með mannskapnum. Kóramótið sem hófst kl. 16 var fjölsótt eða liðlega 300 manns. Húnvetningar áttu sviðið fyrstir og fluttu lög sem þeir sungu sig til sigurs á Stöð tvö og hlutu lof fyrir. Næstir á svið voru Vopnfirðingar með sín 4 lög en hver kór söng 4 lög og samkórinn stóri að lokum 4 ásamt upplappslagi.

 

Fyrst laga Vopnfirðinga var Ísland farsælda frón og tókst einkar vel. Næstu tvö voru lög Jóns Þórarinssonar, Fossinn og Þá lífið oss réttir, og að lokum Hver á sér fegra föðurland. Ekki léttust laga til flutnings en Stephen veit hvaða efnivið hann hefur og miðar útsetningar sínar og lagaval í ljósi þess. Var gerður góður rómur að framlagi Vopnfirðinga rétt eins og hinna. Samsöngur kóranna var hápunktur tónleikanna enda hefur fólk ánægju af að hlíða á kraftmikinn karlakórssöng og tæplega verður það öllu kröftugra en Brennið þið vitar eftir Pál Ísólfsson við ljóð Davíðs Stefánssonar.

 

Það er ánægjulegt að greina frá því að kórar Vopnafjarðar, karla- og kirkjukórinn, halda til Færeyja 11. apríl nk. og halda þar tvenna tónleika, í Klakksvík og Þórshöfn.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir