Ungmennaráð fundar með sveitarstjórn

15.03 2018 - Fimmtudagur

Ungmennaráð Vopnafjarðar kom saman til fyrsta fundar þann 26. september sl. og hefur ráðið fundað 2var síðan en skv. samþykktum þess skal fundað a.m.k. tvisvar á ári auk fundar með sveitarstjórn. Hefur ungmennaráð sveitarfélagsins gert betur og komið saman til fundar þrisvar sem fyrr greinir og ungmennin hafa sýnt að þau hafa rödd sem vert er að hlýða á. Sem dæmi má nefna komu ungmennin með margskonar tillögur viðvíkjandi framtíðarskipulag íþróttasvæðisins og hönnuðir hafa tekið mið af í verkefnavinnu sinni. Í dag kl. 16 setjast fulltrúar í ungmennaráði á fund sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps og má gera ráð fyrir að verði öllum hlutaðeigandi gagnleg stund.

 

Á fundi ungmennaráðs 19. febrúar sl. var eftirfarandi samhljóða samþykkt:

 

Ungmennaráð mælir með lækkun kosningaaldurs eins og Landssamband ungmennafélaga hefur gert. Við teljum mikilvægt að ungu fólki sé gefið tækifæri til að kjósa um málefni sem snerta þau beint. Sett verði af stað átak innan grunnskólans um aukna vitund barna og ungmenna í víðtækri samvinnu skólans og sveitarstjórnar um sveitarstjórnar- og landsmál. Ungmennaráð telur gott að ungmenni öðlist réttindi í áföngum, kosningaaldur verði 16 ár, ökupróf 17 ára og 18 ára lögráða.

 

Í forystugrein nýjasta tbl. Sveitarstjórnarmála tekur Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga málið til umræðu og er ekki alveg sannfærður um ágæti þessa. Greinir Halldór svo frá að þingmenn úr nokkrum flokkum hafi lagt fram frumvarp í því skyni að gera 16 ára kleift að kjósa og bjóða sig fram. Fyrir allnokkrum árum samþykkti Alþingi að fullorðinsaldri væri náð við 18 ára aldur og telur Halldór það augljósan galla á frumvarpinu að á meðan 16 ára unglingur getur boðið sig fram er hann hvorki sjálf- né fjárráða.IMG_1871.JPG

 

Halldór eins og allir sem á annað borð velta málinu fyrir sér segir mikla þörf vera á að efla lýðræðisvitund þessa aldurshóps og annarra raunar einnig, sbr. sífellda fækkun þeirra er að kjörborði ganga. Segir Halldór ungmennaráðin gott og mikilvægt skref í þessa átt. Oft heyrist talað um íbúalýðræði en það eitt dugar ekki að koma saman ungmennaráði eða öðrum ráðum/nefndum verði virkni ekki sem skyldi. Eru sveitarfélög því hvött til að sinna þessu verkefni af alúð. Það er merki þess að vilji sé til staðar hér því svo sem greinir frá að ofan er komið að fyrsta fundi ungmennaráðs og sveitarstjórnar Vopnafjarðar.

Meðfylgjandi mynd er tekin á fyrsta fundi ungmennaráðs.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir