Veðurblíða á landinu

19.03 2018 - Mánudagur

Íslendingar hafa skynjað nærveru vorsins sl. daga en veður liðinnar helgar var sérlega gott með mildum sunnanþey og sólskini. Hefur gengið mjög á snjóinn, hann með öllu horfinn hér á Vopnafirði nema einstaka snjóbingur þar sem honum hafði verið skóflað upp við gatnahreinsun. Þótt ekki sé sami hitinn á landinu í dag og var um helgina er engu að síður hlýrra í Reykjavík en mörgum borgum Evrópu og BNA, Ósló, London, New York, París, Amsterdam, Berlín og Boston svo dæmi séu tekin.

 

Að fenginni reynslu vitum við að enn er langt til vors og við munum fá að snjó og kulda að nýju. Bretar sem dæmi voru komnir með veður sem þeir eiga fremur að venjast á þessum árstíma fyrr í mánuðinum eða 10-12°C en snarlega snerist til verri vegar og um helgina kyngdi niður snjó í brunakulda. Hérlendis verður í dag sunnanátt 3-10 m/s og lítilsháttar væta S- og V-til, en annars léttskýjað að mestu skv. Veðursofunni. Sunnan 8-13 og rigning með köflum á morgun, en úrkomulítið NA-til. Hægari vestlæg átt og styttir víða upp annað kvöld. Hiti 3 til 10 stig að deginum.

 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Suðlæg átt, víða 8-13 m/s, en hvassara vestast. Rigning með köflum, en úrkomulítið NA-til. Hiti 3 til 8 stig að deginum.

 

Á fimmtudag:

Sunnan 8-13 m/s, en norðaustan 8-13 á Vestfjörðum. Rigning eða slydda, en bjart með köflum NA-lands. Hiti 1 til 7 stig, hlýjast syðst.

Á föstudag:

Norðaustan 10-15 m/s og snjókoma NV-til, annars hægar vindar og lítilsháttar rigning eða slydda. Hiti 0 til 5 stig S-lands og við A-ströndina, en annars vægt frost.

 

Á laugardag:

Útlit fyrir hvassa norðaustanátt með snjókomu, en hægara og úrkomulítið SV-til. Kólnandi veður.

Á sunnudag:

Norðaustanátt og él, en úrkomulítið a SV-landi. Svalt í veðri.

 

Hugleiðingar veðurfræðings

Fremur hæg sunnanátt í dag og víða léttskýjað á Norðaustur- og Austurlandi. Skýjað í öðrum landshlutum en þurrt að mestu.

Sunnan 8-13 m/s og rigning um tíma á morgun, einkum sunnan- og vestanlands. Hiti 3 til 10 stig að deginum. Hægari vindur og úrkomulítið annað kvöld.

Áfram er útlit fyrir suðlæg átt á miðvikudag, milt veður og vætusamt á Suður- og Vesturlandi.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir