Árshátíð Vopnafjarðarskóla í dag, 23. mars

23.03 2018 - Föstudagur

Árshátíð Vopnafjarðarskóla er í dag, föstudaginn 23. mars, annars vegar kl. 14:00, hins vegar kl. 20:00 í félagsheimilinu Miklagarði. Það er ávallt með tilhlökkun sem Vopnfirðingar horfa til árshátíðar skólans og má fyllilega staðsetja hana sem einn stóru menningarviðburða hvers árs í sveitarfélaginu. Venju samkvæmt hafa nemendur lagt á sig mikla vinnu við æfingar rétt eins og leiðbeinendur þeirra úr hópi starfsliði skólans. Kaffihlaðborð er í hléi eins og endranær og er verð 1.000 kr. fyrir fullorðna, 500 kr. fyrir börn og frítt fyrir leikskólabörn.

 

Tíðindamaður veit að sjálfögðu ekkert um hvað í boði verður annað en dásemdar skemmtun í boði nemenda grunnskólans. Þátttakan er krökkunum mikilvæg og það er til fyrirmyndar hvernig að hlutunum er staðið við Vopnafjarðarskóla því þess er ávallt gætt að hver og einn fái notið sín þar sem styrkur hans liggur. Að vanda er hápunktur skemmtunarinnar sýning 9. og 10. bekkjar en það er ljúfsárt að horfa upp á þau elstu á sviðinu vitandi að þau eru þar í hinsta sinni á þessum vettvangi. En þannig er líka lífið, allt fram streymir endalaust.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir