Austurbrú rekin með hagnaði

03.04 2018 - Þriðjudagur

Ársfundur Austurbrúar var haldinn á Breiðdalsvík þann 20. mars sl. og kom fram í málið Jónu Árnýjar framkvæmdastjóra að árið 2017 hafi verið hvoru tveggja viðburða- og árangursríkt. Því til staðfestu er ársreikningurinn sem sýnir að í fyrsta sinn frá stofnun 2012 er Austurbrú með jákvætt eigið fé. Framkvæmdastjóri Austurbrúar þakkar þennan árangur m.a. sterkri kostnaðarvitund starfsfólks og góðri samvinnu starfsmanna og stjórnar stofnunarinnar. Frá þessu er greint á heimasíðu Austurbrúar, www.austurbru.is

 

Árið 2017 var árangursríkt í rekstri Austurbrúar. Rekstrartekjur Austurbrúar jukust á milli ára og voru 356,5 m.kr. samanborið við 321,8 m.kr. á árinu 2016. Tekjuaukningu milli ára má fyrst og fremst rekja til aukinna umsvifa á sviði símenntunar sem og ýmis konar verkefna á sviði atvinnu- og markaðsmála.

 

Kostnaður jókst samhliða aukningu tekna en laun og launatengd gjöld voru undir áætlun. Rekstrarniðurstaða var því jákvæð sem nemur 36,1 m.kr. á árinu 2017 samanborið við 32,4 m.kr. árið áður. Eigið fé stofnunarinnar í árslok 2017 var jákvætt sem nemur 2,4 m.kr. samanborið við neikvætt eigið fé sem nam 33,7 m.kr. í árslok 2016. Eigið fé stofnunarinnar hefur því styrkst sem nemur 87,4 m.kr. frá árinu 2014. Veltufé frá rekstri jókst á milli ára og var 39,1 m.kr. á árinu 2016 samanborið við 38,0 m.kr. árið á undan.

 

Á árinu 2017 var haldið áfram að greiða niður langtímalán sem tekið var snemma árs 2015 til endurskipulagningar á sjóðstreymi stofnunarinnar. Með útsjónarsemi, sterkri kostnaðarvitund og góðri samvinnu starfsmanna og stjórnar Austurbrúar hefur þessi tímamótaárangur í rekstri stofnunarinnar náðst fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir.

 

Eykur traust

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, segir þýðingu þessa árangurs mikinn bæði til lengri og skemmri tíma: „Á árinu 2014 var fjárhagsleg staða Austurbrúar orðin mjög þröng, vægast sagt,“ segir hún. „Það var ljóst að mjög breiða samvinnu þyrfti til svo snúa mætti við rekstrinum. Við gerðum ráð fyrir að ná þessum tímamótum um jákvætt eigið fé um mitt ár 2019 og erum því einu og hálfu ári á undan áætlun sem er mjög ánægjulegt. Til skemmri tíma þýðir þetta að við getum staðið við okkar skuldbindingar. Endurskoðandi stofnunarinnar setur ekki lengur fyrirvara við rekstrarhæfi stofnunarinnar í ársreikninginn sem er afar ánægjulegt. Til lengri tíma má líta á þetta sem áfanga í þeirri vinnu að byggja upp nægjanlega sterkt eigið fé til að mæta eðlilegum rekstrarsveiflum. Við erum ekki alveg komin þangað en erum á góðri leið.“

 

Meðfylgjandi mynd er af ársfundinum fengin af vef Austurbrúar og sýnir Jónu Árný í ræðustóli.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir