Málstofan Skógurinn skemmir ... haldin á Vopnafirði laugardaginn 07. apríl

10.04 2018 - Þriðjudagur

Frá því var greint hér á heimasíðu Vopnafjarðar 05. apríl sl. að haldin yrði málstofa í félagsheimilinu laugardaginn 07. apríl undir heitinu Skógurinn skemmir útsýnið en hvað gerir hann fyrir okkur? Til stofunnar voru boðaðir þekkingaraðilar á sviði skógræktar með öllu því sem hún inniber auk liðsstyrks af heimavelli. Tíðindamaður naut þeirrar gæfu að fá tækifæri til þátttöku og þá einkum metið út frá þeim stórmerkilegu erindum sem kollegar hans úr hópi frummælanda höfðu að færa. Sá hópur fólks sem lagði leið sína í félagsheimilið fór þaðan margs vísari en eins og málstofustjóri Else Möller orðaði það var megintilgangur málstofunnar að setja fram umræðu um skógrækt á ögrandi hátt. Fundarstjóri var Björn Halldórsson.

 

Fyrstur á mælendaskrá var Lárus Heiðarsson frá Skógrækt ríkisins og nefndi erindi sitt „Skógrækt sem hluti af fjölbreyttari landbúnaði“. Fjallaði Lárus m.a. um hlutverk skóga, notkun skógarafurða í margvíslegum tilgangi, til framtíðar var horft, fjallað um lífhagkerfi (e. bioeconomy) sem næsta „þrep“ hagkerfisins og þau tækifæri sem felast í því. Glærukynning Lárusar er að finna hér að neðan sem og annarra frummælenda.

 

Næstur í pontu var Einar Gunnarsson starfsmaður Skógræktarfélags Íslands. Nefndi Einar erindi sitt „Án skóga er jörðin óbyggileg“. Í erindi sínu ræddi Einar vangaveltur um útsýni og frá hvaða sjónahorni það er skoðað. Hann benti á þau tækifæri sem við höfum á Vopnafirði með skógrækt og mögulegt samstarf við stærri fyrirtæki eins og HB Granda í sambandi við KO2LViÐUR og auknu fjármagni til skógræktar.

 

IMG_2188.JPGFrá Landgræðslu ríkisins kom Guðrún Schmidt með erindisheitið „Hvað og hvar? Hvaða möguleika býður landið upp á?“ Guðrún kynnti samstarfsverkefnið „Betra bú“ sem er sk. tæki fyrir landeigendur til að vinna landnýtingaráætlun fyrir jörð sína. Með aðferð þessari fæst betri yfirsýn yfir ástand landsins og þau tækifæri sem svæðið býður upp á. Er verkefninu „Betra bú“ ætlað að leiða bóndann skref fyrir skref í gegnum gerð landnýtingaráætlana á raunhæfan og einfaldan hátt.

 

Anna Berg Samúelsdóttir er umhverfisstjóri hjá Fjarðarbyggðar og kynnti erindi sitt „Náttúruvernd: Til hvers og fyrir hvern?“ Var erindið fræðandi og samtímis var ögrandi spurningar spurðar og þeim beint til þátttakenda málstofunnar, s.s.: Hvað er náttúrulegt? Hún minnti okkur á að íslensk náttúra hefur verið mótuð af manninum síðustu 1200 árin og það er því erfitt að skilgreina hvað er í raun og veru er náttúrulegt.

 

Síðastur á mælendaskrá var Magnús Már fulltrúi hjá Vopnafjarðarhreppi. Tók erindi hans mið af skipulagsmálum. Vitnaði var í frétt frá BBC 2005 þar sem Ísland var skilgreint sem „Stærsta eyðimörk í Evrópu“ og minnti á að einungs 1,2% af flatamáli Íslands er nú þakið skógi og því litlar líkur á að skógurinn muni skemma útsýnið verulega. Magnús gerði síðan að umtalsefni þátt skipulagsmála viðvíkjandi skógrækt og aðra nýtingu lands, frá landsskipulagsstefnu niður í deiliskipulagsvinnu sveitarfélaga. Á sveitarfélögum hvíla skyldur sem ber að framfylgja lögum samkvæmt.

 

Að afloknum erindum fóru fram líflegar og skemmtilegar umræður og greinilegt að fólk sýndi málefninu áhuga. Spurningar um gildi lúpínu í skógrækt og landgræðslu komu m.a. upp og þar sem málið er margslungið var ákveðið að fresta umræðu fram til næstu málstofu.

 

Formaður Landbótar og verkefnistjóri Austurbrúar Else Möller lauk málstofunni með stuttri upprifjun og hnykkti á meginatriðum hvers erindis. Þakkaði Else ræðumönnum og gestum fyrir áhugaverða, fróðlega og skemmtilega málstofu sem tilkomin var vegna alþjóðlegs dags skóga 21. mars 2018. 

Meðfylgjandi myndir tók Else Möller og Björn H.

Hægt er að fara inn á hvert erindi með því að slá á hlutaðeigandi slóð.

Málstofa Skógurinn skemmir - Lárus Heiðarsson.pdf

Málstofa Skógurinn skemmir - Einar Gunnarsson_2318637.pdf

Málstofa Skógurinn skemmir - Guðrún Schmidt.pdf

Málstofa Skógurinn skemmir - Magnús Már_6737244.pdf
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir