Austfirðingum fjölgar um 2% - Vopnfirðingum um 6%

13.04 2018 - Föstudagur

Íbúum Austurlands fjölgaði um 2% á milli árana 2017 og 2018 samkvæmt Hagstofu Íslands og miðast við 01. janúar sl. Íbúum fjölgar í 5 af 8 sveitarfélögum fjórðungsins. Íbúar Austurlands voru 10.485 í upphafi árs og hafði fjölgað um 175 eða 2% milli ára, 49% þeirra í Fjarðabyggð eða 86. Vopnfirðingum fjölgaði hlutfallslega meira en Fjarðarbyggðarbúum eða um 6% og er öll kvennamegin því þeim fjölgar um 18 meðan karlmönnum fækkar um 8. Voru Vopnfirðingar 655 á þessum tímamótum. Er nú því sem jafnt á með körlum og konum komið á Vopnafirði, 328 karlar og 327 konur.

 

Fámennustu sveitarfélögin eiga undir högg að sækja og mun án efa ýta undir sameiningu í einhverri mynd á komandi misserum eða árum. Fjarðabyggð er sem fyrr fjölmennasta sveitarfélagið með 4.777 íbúa – og fjölgar um 185 manns á næstunni með sameiningu Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps. Þá standa eftir 7 sveitarfélög í fjórðungnum. Fljótsdalshérað fagnaði því í fyrra að íbúatalan náði 3.500 og voru um áramót 3.547.

 

Það er athyglisverð staðreynd að á Austurlandi eru karlmenn umtalsvert fleiri en konur eða 5.490 á móti 4.995. Raunar ber þess að geta að karlmenn á landsvísu eru hátt í 7.000 fleiri en konur hvað sem veldur þeirri skekkju. Íbúar einstakra sveitarfélaga voru um áramót sem hér fylgir.

 

Borgarfjarðarhreppur: 108 og hafði fækkað um 8%

Breiðdalshreppur: 185 og hafði fækkað um 3%

Djúpavogshreppur: 461 og hafði fjölgað um 1%

Fjarðabyggð: 4.777 og hafði fjölgað um 3%

Fljótsdalshérað: 3.547 og hafði fjölgað um 2%

Fljótsdalshreppur: 76 og hafði fækkað um 5 pers.

Seyðisfjörður: 646 og hafði fjölgað um 4%

Vopnafjarðarhreppur: 655 og hafði fjölgað um 6%
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir