Skoðankönnun um hug íbúa til sameiningar sveitarfélaga

24.04 2018 - Þriðjudagur

Í síðastliðnum mánuði svöruðu íbúar Austurlands skoðanakönnun á vegum samstarfsnefndar sveitarfélaga á Austurlandi þar sem leitast var við að fá svar við hug Austfirðinga til sameingar og/eða aukins samstarfs. Í stuttu máli voru íbúar Fljótsdalshéraðs hlynntastir, Vopnfirðingar og Fljótsdælingar andvígir sameiningarhugmyndum. Raunar eru íbúar Fljótsdalshéraðs þeir einu sem virkilega horfa til frekari sameiningar af íbúum sveitarfélaganna 6 en víða er vilji til aukins samstarfs.

 

Frá síðasta hausti hafa sveitarfélögin sem þegar eiga í samstarfi um brunavarnir og félagsþjónustu átt í viðræðum um frekara samstarf og í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga var ákveðið að kanna hug til sameiningar. Auk heldur var spurt um áhuga á sveitarstjórnarmálum. Um málið var fjallað í Austurfrétt þann 08. apríl sl., sbr. www.austurfrett.is

 

Íbúar Fljótsdalshéraðs sýna áberandi mestan vilja til sameiningar, 64% vilja sameina öll sveitarfélögin sex og 32% allt Austurland. 19% velja aðra kosti, flestir að sameina sveitarfélögin fjögur á miðsvæðinu en og svo að sameinast bara Fljótsdælingum. Aðeins 5% Héraðsbúa vilja enga sameiningu, langlægsta hlutfallið í könnuninni.

 

51% Seyðfirðinga vilja sameina sveitarfélögin sex og 20% allt Austurland en 13% enga sameiningu. 28% vilja aðrar sameiningar, helst bara við Fljótsdalshérað en einnig eru margir til í að hafa Fljótsdalshrepp með.

 

Flestir þeirra Djúpavogsbúa sem taka afstöðu vilja sameiningu sveitarfélaganna sex eða 41% og 27% vilja sameina allt Austurland. 18% nefna aðra kosti og dreifast þeir nokkuð jafnt á að vilja Hornafjörð, Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað einvörðungu. 16% vilja enga sameiningu.

 

Á Borgarfirði vilja 26% sameiningu sveitarfélaganna sex, 15% vilja sameina allt Austurland en 25% enga sameiningu. 19% vilja aðrar sameiningar sem væru þá við annað hvort bara við Fljótsdalshérað eða með Fljótsdalshreppi með.

 

59% þeirra sem svara könnuninni á Vopnafirði vilja enga sameiningu og 17% aðra kosti. Sameining við Langanesbyggð er þar oftast nefnd. 14% eru til í sameiningu sveitarfélaganna sex og 8% vilja sameina allt Austurland.Austurland 1.jpeg

 

Séu niðurstöðurnar á Héraði afgerandi með sameiningu eru niðurstöðurnar í Fljótsdal afgerandi gegn henni, 67% vilja enga sameiningu. 7% vilja sameina allt Austurland og 6% vilja aðra kosti, aðallega Fljótsdalshérað. Aðeins 2% vilja sameiningu sveitarfélaganna sex.

 

Áhugi fyrir auknu samstarfi er mestur í litlu sveitarfélögunum, Borgarfirði og Fljótsdal, helmingur aðspurða þar segist fylgjandi. Þar á eftir styðja 40% það á Vopnafirði og 35% í hinum sveitarfélögunum þremur.

 

Svör við spurningunum um áhuga á sveitastjórnarmálunum eru athygliverðar og haldast í hendur við þátttöku í könnuninni. Hún er best í Fljótsdal 77%, 58% á Borgarfirði, 55% á Seyðisfirði, 51% Djúpavogi, 45% á Vopnafirði en lökust 40% á Héraði.

 

Það jákvæða er að almennt virðast íbúar fylgjast vel með sveitastjórnarmálum, hæst er hlutfallið á Borgarfirði, 83% en læst, 60% á Héraði. Í hinum sveitarfélögum fjórum er hlutfallið um 70%.

 

Að sama skapi segjast aðeins 9% Borgfirðinga engan áhuga hafa á sveitastjórnarmálum en á móti 26% Vopnfirðinga og 28% Héraðsbúa. Í hinum sveitarfélögunum þremur er hlutfallið 12-15%. Þessum tölum má þó taka með þeim fyrirvara að líklegt er að þeir sem svari könnun sem þessari yfir höfuð hafi meiri áhuga á málefninu en þeir sem ekki svara.

 

Eins er áhuginn á að bjóða sig fram til sveitastjórnar mestur á Borgarfirði, 21% svarenda eru tilbúin til þess og 17% í Fljótsdal. Lægst er hlutfallið, 8% á Héraði en þó eru 80 svör að baki sem ætti að duga vel til að manna bæjarstjórnina. Í hinum sveitarfélögunum þremur er hlutfallið 10-12%.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir