1. maí

03.05 2018 - Fimmtudagur

Fyrsti maí, einnig kallaður hátíðisdagur verkamanna, er alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins. 1889 hittust fulltrúar (annarra) alþjóðasamtaka kommúnista á ráðstefnu í París í tilefni af því að hundrað ár væru liðin frá því að Parísarbúar tóku Bastilluna. Vopnfirðingar héldu daginn hátíðlegan venju samkvæmt. Hafi kröfuganga verið deginum tengd er sú hefð að baki. Hins vegar fjölmenna íbúar sveitarfélagsins í félagsheimilið í boði starfsmannafélagsins Afls þar sem gesta bíður m.a. glæsilegt kaffihlaðborð kvenfélagskvenna en ekki síður dagskrá á vegum Afls. Að þessu sinni söng Karlakór Vopnafjarðar nokkur lög og meðan gestir gæddu sig á góðmetinu ómuðu tónar Gunnars, Árna og Baldvins. Ræðumaður dagsins var Sigríður Dóra Sverrisdóttir.

 

Í ræðu Sigríðar Dóru kom fram að þótt Ísland státi almennt af velmegun er það er allstór hópur sem á við sárt að binda. Á verðinum megum við aldrei sofna og þörfin fyrir baráttu verkalýðsins jafn mikilvæg og fyrr. Að aflokinni ræðu bauðst gestum að ganga að hlaðborðinu veglega og á meðan gestir nutu rétta kostanna lék tríóið ljúfa tónlist og áttu sinn stóra þátt í að skapa notalega stemningu í sal Miklagarðs.

 

Alþjóðasöngur Verkalýðsins var fyrst fluttur opinberlega í júlí 1888. Höfundur er Eugén Pottier en Sveinbjörn Sigurjónsson þýddi sönginn yfir á íslensku. Lagið er eftir Frakkann Pierre Degeyter og er frá 1888.

 

Hér er texti Nallans, lék tríóið lagið án söngs að þessu sinni.

 

Fram, þjáðir menn í þúsund löndum,

sem þekkið skortsins glímutök!

Nú bárur frelsis brotna á ströndum,

boða kúgun ragnarök.

Fúnar stoðir burtu við brjótum!

 

Bræður! Fylkjum liði í dag-

Vér bárum fjötra, en brátt nú hljótum

að byggja réttlátt þjóðfélag.

Þó að framtíð sé falin,

grípum geirinn í hönd,

því Internationalinn

mun tengja strönd við strönd.

 

Meðfylgjandi eru myndir tíðindamanns af viðburðinum í félagsheimilinu.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir