Kynning á breytingum Aðalskipulags og nýtt deiliskipulag

11.05 2018 - Föstudagur

Vopnafjarðarhreppur stóð fyrir kynningu á Aðalskipulagsbreytingum sem Yrki arkitektar eru að vinna í samvinnu við sveitarfélagið. Um er að ræða fyrirhugaðar breytingar á námun, byggingu fuglaskoðunarhúsa, uppbyggingu stíga, rýmkun heimilda á frístundahúsum á lögbýlum og tillögu að verndarsvæði í byggð. Aukinheldur var deiliskipulag íþróttasvæðis til kynningar en sömu hönnuðir halda um það verkefni sem er langt komið.

Til Vopnafjarðar voru mætt í tengslum við kynninguna þau Sigurður Jónsson, verkfræðingur og byggingafulltrúi sveitarfélagsins, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir landslagsarkitekt og Edda Þórsdóttir arkitekt hjá Yrki arkitektum. Kom í hlut Sigurborgar Óskar að leiða kynninguna en fram fór lífleg umræða um fyrirhugaðar Aðalskipulagsbreytingar og deiliskipulag íþróttasvæðisins.

 

Eðlilega sýnist sitt hverjum og mótaðist umræðan af því, skoðanskipti er grundvöllur lýðræðis og með kynningu sem þessari er beinlínis kallað eftir sjónarmiðum íbúa. Héðan fara hönnuðir og halda áfram við verk sitt en skipulagsferli, Aðal- eða deiliskipulag, tekur lögum skv. alllangan tíma og ljóst að t.a.m. deiliskipulagið verður ekki samþykkt fyrr en í lok sumars og vinna við vallarhúsbyggingu hefst í kjölfar þess.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir