Hátíðarguðsþjónusta í Vopnafjarðarkirkju

12.05 2018 - Laugardagur

Á uppstigningardag 10. maí sl. var sameiginleg guðsþjónusta Langanes- og Hofsprestakalls í Vopnafjarðarkirkju. Dagurinn var á sínum tíma tileinkaður eldri borgurum þessa lands og hafa kirkjur landsins boðið til guðsþjónustu af því tilefni. Þannig var því einmitt farið hér og var vel í lagt því auk prests okkar, sr. Þuríðar Bjargar W. Árnadóttur, þjónuðu frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup og sr. Hildur Sigurðardóttir prestur á Skinnastað. Að athöfn lokinni var boðið til kaffisamsætis og hreint ekki í kot vísað eins og borðin svignuðu undan veigunum.

 

Skiptu prestar með sér messuliðum, sr. Þuríður Björg þjónaði fyrir altari, sr. Hildur fór með ritningarlestur og frú Agnes M. predikaði. Kirkjukórinn söng undir stjórn Stephen Yates og hljómaði einkar vel. Athöfnin bar þess merki að umbúnaður hennar var meiri en öllu jafna er og allt lagðist á eitt að gera hana að sem notalegasta. Hið sama má segja um það sem gesta beið í safnaðarheimilinu, kræsingar af bestu gerð. Þar stýrði Borghildur Sverrisdóttir verki. Þurfti engan að hvetja til að smakka á góðmetinu og áttu gestir aðra gæðastund innan veggja Vopnafjarðarkirkju.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir