Boltinn tekinn að rúlla

25.05 2018 - Föstudagur

Sumarið er tíminn þá boltinn rúlla fer og síðastliðinn þriðjudag fór fram fyrsti keppnisleikur sumarsins á Vopnafjarðarvelli. Vikum og mánuðum áður höfðu meistaraflokkar Einherja leikið í Lengjubikar KSÍ auk stóru bikarkeppninnar, Mjólkurbikar. Var þriðjudagsleikurinn hluti af þeirri keppni og öttu piltarnir kappi við ÍBV í Eyjum fyrsta maí sl. í henni auk heldur og stóðu sig með sóma þótt leikurinn tapaðist. Áður en gerlegt er að leika keppnisleik þarf að ýmsu að huga og þann 22. maí sl. var unnið á vellinum, raunar báðum, í aðdraganda keppnistímabilsins 2018.

 

Starfsmenn þjónustumiðstöðvar snerust í margvíslegum verkum, önnuðust slátt valla, settu keppnismörkin saman og komu fyrir færanlegum staurum og settu á þá bönd. Síðan tók merking vallar og þó vera kunni að fáeinar línur líti sakleysislega út á grænu grasi er það vandaverk að vinna – vilji hlutaðeigandi/-ur að afurðin líti sómasamlega út. Að afloknum vetri markar ekki fyrir línum svo reka þarf niður hæla, setja út snúru, hagræða henni ítrekað uns hún liggur giska bein, þá má hefjast handa við málninguna. Svona er haldið áfram koll af kolli uns hver lína, bein eða bogin er komin á sinn stað.

 

Að ofangreindum verkum loknum eru hornfánar settir á sinn stað, markataflan gangsett með rafmagni frá Steina Halldórs í húsi fyrrum Eldisfóðurs, gámar þrifnir ásamt húsi og varamannaskýla. Við verklok litu dómarar á völlinn og gerðu athugasemdir engar – var þá ekkert að vanbúnaði að hefja leik.

Að endingu er rétt að minna á að piltarnir í meistaraflokki leika sinn fyrsta heimaleik í kvöld er KF mætir í heimsókn. Stelpurnar leika syðra sinn fyrsta leik í 2. deildinni á Nesinu gegn Gróttu - fá allir hlutaðeigendur sendar baráttukveðjur á þessum vettvangi.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir