Blakvetur kvaddur

28.05 2018 - Mánudagur

Allt frá vetrinum 2011-12 hefur blakíþróttin verið skipulega stunduð á Vopnafirði þökk sé áhugasömum hópi kvenna. Í frétt frá 2012 segir að allt hafi þetta byrjað sem léttur leikur – og er svo enn - en smám saman óx stúlkunum ásmegin og án þess að þess væri sérstaklega getið í fjölmiðlum þjóðarinnar skráðu Vopnfirsku blakdömurnar sig til keppni í einu þeirra móta sem fram fara vítt og breitt um landið að vetri. Fjaðrirnar urðu til og ekki litið um öxl eftir það. Tekin var ákvörðun að stofna til krakka- og ungmennablaks hvar Fjarðrir skiptu með sér þjálfuninni. Í liðinni viku lauk vetrarstarfinu með laufléttu móti og pítsu.

 

Á samskiptavefnum fésbók tilheyrandi Einherja er texta Svövu Birnu Stefánsdóttur að finna ásamt myndum sem teknar voru á lokadegi vetrarstarfsins. Þar segir: Í síðustu viku slúttuðum við blakinu hjá krökkunum. Eldri hópurinn fékk nokkrar Fjaðrir til að spila við/með og yngri hópurinn bauð foreldrum á smá slúttmót. Að lokum fengu allir pizzu. Takk fyrir veturinn iðkendur og foreldrar. Til gamans langar mig að benda á það að í vetur æfðu um 35 krakkar úr 3.-10. b. blak hjá Einherja og rúmlega 30 konur með Fjöðrunum, þannig að nærri 70 manns æfa blak á Vopnafirði.

 

Ofangreint þýðir að um 10% íbúa sveitarfélagsins æfa blak á vegum Fjaðranna/Einherja og sýnir með óyggjandi hætti mikilvægi þess stafs sem unnið er af hendi þessa fyrirmyndar hóps. Hafa krakkarnir rétt eins og eldri þátttakendur tekið þátt í mótum og staðið sig með prýði. Nú bíður sumarið með sínum tækifærum til leiks, þegar haustar á ný verður boðað til æfinga á nýju í sal íþróttahússins. Blakið er komið til að vera á Vopnafirði.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir