Tungumálanámskeið fyrir nýbúa á Vopnafirði og Bakkafirði

30.05 2018 - Miðvikudagur

Á Vopnafirði hefur íslenskukennsla fyrir nýbúa verið í boði í vetur að frumkvæði Austurbrúar. Nutu nemendur kennslu Ásu Sigurðardóttur og hafa vafalaust lært mikið á þeim vikum sem kennslan stóð yfir því Ása kann sitt fag. Í skýrslu félagsráðuneytisins frá 2005 stendur m.a að fjölmenningarsamfélagið sé komið til að vera. Merkjanleg er fjölgun erlendra nýbúa á Vopnafirði á síðastliðnum árum og það er mikilsumvert að samfélagið leitist við að gefa þeim tækifæri til að aðlaga sig íslensku samfélagi.

 

Samkvæmt áðurgreindri skýrslu er gagnkvæm aðlögun mikilvæg og liggur í hlutarins eðli og það sem gera má m.a. er að tryggja hinum erlendu nýbúum aðgang að tungumálanámskeiðum og fræðslu um helstu þætti samfélagsins og menningu lands og þjóðar. Sem fyrr greinir var íslenskukennsla í boði hér í vetur með aðkomu Austrubrúar. Sérstök áhersla var lögð á talað mál og hlustun, lestur, ritun og hinni snúnu íslensku málfræði fengu þau að kynnast.

 

Alls sóttu 19 manns námskeiðið; 7 í Íslenska 1 fyrir byrjendur og 12 í Íslenska 2 fyrir lengri komna. Munu allir þátttakendur hafa verið ánægðir með námskeiðið og þakklátir fyrir að fá tækifæri fyrir að læra málið og kynnast hver öðrum. Eru þau sammála að brýnt sé að þau haldi áfram að læra og með haustinu gefist nýtt tækifæri til frekara náms. Höfðu nokkrir þátttakendur á orði að þeir kynnu að meta það ef Vopnfirðinga kysu að tala við þá á íslenku fremur en ensku!

 

Það gildir hið sama hérlendis og í öðrum löndum að því fyrr sem að íbúi af erlendu bergi brotinn nær að samsama sig íslensku þjóðfélagi njóta báðir góðs af. Við höfum allt að vinna og því betri samskipti því betri þegnar munu hinir nýju Íslendingar reynast.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir