Hreyfivika, Kvennahlaup, fótbolti, sjómannadagur og tónleikar

31.05 2018 - Fimmtudagur

Hreyfivikan stendur sem hæst þessa dagana og mæðir mikið á Bjarneyju Guðrúnu framkvæmdastýru vikunnar. Í dag eða í kvöld öllu heldur kl. 20 er skallatennis í boði í íþróttahúsinu og miðast eldri nemendur grunnskólans, frá 6. bekk. Á morgun kl. 14 er náttúrubingó með mætingu við Vopnafjarðarskóla og kvöldganga kl. 20 og er mætt við íþróttahúsið. Laugardagur markar lok Hreyfivikunnar með Kvennahlaupi ÍSÍ kl. 10 og leik Einherja og Vængja Júpiters á Vopnafjarðarvelli kl. 14. Á sunnudag fagnar íslensk þjóð sjómannadegi og MC Gauti skemmtir um kvöldið. Veðurútlit er býsna gott þessa daga.

 

Svo sem að framan greinir er hreyfivika á Vopnafirði þessa vikuna og sjálfsagt fyrir fólk að nýta sér það með þátttöku í viðburðum og/eða á eigin vegum. Vel hefur gengið hingað til, veður verið gott og fólk sýnir viðburðum áhuga. Er þess vænst að svo verði áfram en eins og mörg undanfarin ár er Kvennahlaupið haldið hér og er sem fyrr greinir laugardaginn 02. júní nk. Vettvangur hlaups er Vopnafjarðarskóli, hefst hlaupið kl. 10 og venju samkvæmt geta þátttakendur valið vegalengdina að eigin geðþótta. Til upplýsinga er leiðin að Miklagarði 550 metrar, að Ollasjoppu 1.000, að syðsta húsi þéttbýlis 1.500 og loks að ristarhliði 3.000 metrar.

 

Kl. 14 sama dag tekur meistaraflokkur karla í Einherja á móti Vængjum Júpiters en þótt Vængir hafi farið hægt að stað í deildinni er liðið skipað öflugum leikmönnum. Má án efa verða hart barist en í síðasta leik, sem leikinn var gegn KF og vannst 2:0, var baráttan gríðarmikil. Vitað er að margir fastagesta verða syðra vegna árshátíðar HB Granda svo sjálsagt er að hvetja fólk sem heima er að mæta og leggja piltunum lið.

 

Á sunnudag 03. júní nk. fagnar þjóðin sjómannadegi og er dagskrána að finna hér að neðan. Eru íbúar hvattir til þátttöku en sem kunnugt er verður ekkert mæti fólk ekki til viðburðar.

 

Kl. 11.00:  Smábátahöfn: Sigling björgunarbátsins Sveinbjörns Sveinssonar– og smábáta - allir velkomnir um borð!

 

Í framhaldi af siglingu við höfn: Smá sprell og leikir í anda sjómannadags. Gerum daginn gleðilegan, mætið og takið þátt!

 

Kl. 14:00: Sjómannadagsmessa við minnisvarðann um drukknaða sjómenn Félagar úr björgunarsveitinni leggja blómsveig að varðanum.  Heiðrum viðburðinn með nærveru okkar. Leyfi veður ekki fer viðburðurinn fram í kirkjunni.

 

Kl. 14:30:  Mikligarður: Hátíðarkaffi Slysavarnarfélagsins.  Að vanda er um glæsilegt kaffihlaðborð að ræða og víst að allir ættu að leggja leið sína í Miklagarð á sjómannadag.

 

Með heimsókn sinni eru gestir að styðja við starfsemi Slysavarnarfélagsins og björgunarsveitar, framlag ykkar skiptir máli.

Síðan er rétt að vekja athygli á að tónlistarmaðurinn MC Gauti ásamt félögum sínum heldur tónleika í Miklagarði kl. 20:00. Eru þeir eru á tónleikaferðalagi um landið með myndavél meðferðis. Miðaverð er kr. 2.990,- 

Meðfylgjandi eru myndir af fótboltagólfi sl. þriðjudag.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir