Skólaslit Vopnafjarðarskóla

01.06 2018 - Föstudagur

Í gær var Vopnafjarðarskóla slitið að viðstöddu fjölmenni í sal skólans. Var hvert sæti skipað og rúmlega það. Skólaslit eru hefðbundin í eðli sínu, skólastjóri fer í gegnum starfið á umliðnum vetri, nemendur fá einkunnablöð sín afhent og elstu nemendurnir kveðja skólann sinn hinsta sinni sem nemendur. Skólaslit eru í eðli sínu stórviðburður, það er jú stórt skref að stíga út úr hinu velskilgreinda umhverfi grunnskólans sé til elstu nemenda horft. Nú eins og yfirleitt áður var boðið upp á tónlistaratriði, þau brjóta upp dagskrána með ánægjulegum hætti. Nemendur voru samtals 86 á þessum vetri og voru þau 10 sem luku námi. Við þau sagði Aðalbjörn skólastjóri að útskrift hvers nemanda væri stærsta stund lífs þeirra hingað til sem námsmanns – héðan af eru þau á eigin forsendum í námi sínu.

 

Með skólaslitum lýkur með formlegum hætti skóla hið tiltekna skólaár og óþreyjufullum nemendum er hleypt út í sumarfrelsið með þeim ævintýrum sem það felur í sér. Það er ávallt ánægjulegt að sjá prúðbúna nemendurna taka við vitnisburði sínum og ber að segja söguna eins og hún er, nemendur Vopnafjarðarskóla eru til fyrirmyndar hvað háttvísi varðar. Klæðnaður 10unda bekkja stúlkna vakti verðskuladaða athygli, þær íklæddar upphlut að þjóðlegum hætti.

 

Hugurinn dvelur einkum meðal útskriftarnema því ekkert verður sem fyrr. Öryggi skyldunámsins er hér með horfið, hver nemandi stendur frammi fyrir ákvörðun um hvert halda skuli næst. Tryggt er að framhald verður bestu árum lífshlaupsins því skólaárin, þátttaka í fræðasamfélaginu, eru forréttindi hvers einstaklings. Gleðilegt er til þess að vita að 4 útskriftarnema hafa mögulega kosið framhaldsdeildina á Vopnafirði sem vettvang námsins næstu 2 árin. Hin halda annað og fá þess vonandi notið í hvívetna.

 

Meðfylgjandi eru myndir frá skólaslitunum og fá nemendur allir hinar bestu kveðjur með von um ánægjulegt sumar og að þau mæti öll hress og kát til skólans að hausti - í skólann sinn hver sem hann kann nú að vera. Ljóst er að Vopnafjarðarskóli bíður þeirra sem þangað eiga erindi að nýju sem og nýnemanna ungu er kveðja Brekkubæ að loknu sumri.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir