Sjómannadagurinn

04.06 2018 - Mánudagur

Íslendingar héldu sjómannadag hátíðlegan um helgina, Vopnfirðingar miða sinn sjómannadag við sunnudag. Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn í Reykjavík árið 1938, 20 árum eftir að Ísland öðlaðist fullveldi, sjómanndagarinn nú er því sá 81. í röðinni í samfelldri sögu hans og hann tileinkaður 100 ára fullveldi þjóðarinnar. Í athugasemdum við frumvarpi til laga um sjómannadag sem lagt var fram á Alþingi 1986 segir m.a. þetta:

 

„Í upphafi sögunnar lagði sjómannastéttin og forustumenn hennar ekki megináherslu á að sjómannadagurinn yrði almennur frídagur sjómanna enda var lífsbaráttan lengst af svo hörð að enga stund mátti missa frá því að afla sér og sínum viðurværis.“

Dagurinn hófst á siglingu björgunarbátsins og smábáta kl. 11 og leiki í framhaldi af siglingunni. Kl. 14 var sjómannadagsmessa við minnisvarðann um drukknaða sjómenn og hátíðarkaffi Slysavarnardeildarinnar Sjafnar í Miklagarði í framhaldi af henni. Sjómannadagur er og á að vera einn hinna eftirtektarverðu daga almanaksársins í bæ sem á afkomu sína undir gjafmildi hafsins.

 

IMG_4937.JPGJúní á það til að vera kaldur en sl. vikur hefur tíðin verið góð. Til að mynda var leikið á Vopnafjarðarvelli daginn áður í veðurblíðu. Í gær var öllu svalara en þó snöggtum hlýrra en við eigum að venjast á þessum degi, merkilegt nokk. Ágætis mæting var í bátasiglingu sem og við dagskrá við höfnina, höfðu allir ánægju af. Líkt og fyrri ár eða eftir að minnisvarðinn var reistur var messan haldin utandyra. Í öllum tilfellum er vindurinn verstur við að eiga og þó viðburðurinn væri færður upp að Framtíðinni lék um messugesti vindur. Breytti það engu því athöfnin náði tilgangi sínum.

 

Hátíðarkaffið er í hugum velflestra ómissandi liður í hátíðarhöldunum, ekki einungis fyrir þær sakir að hlaðborðið svignar undan þungum Hnallþórunum, heldur sækjumst við eftir samvistum við samborgar okkar. Ávarp flutti Valgerður Friðriksdóttir, Valla í Brekku, um sjómennsku fyrri ára þegar sambandið var með allt öðrum hætti en nú og aðstæður sjómanna auk heldur aðrar og verri. Mæltist Völlu vel. Viðurgjörningurinn gladdi og svei mér þá ef allir fengu ekki nægju sína að sinni en svo vel var mætt að þessu sinni að opna varð á milli sala og bæta borðum í aðalsal Miklagarðs.

 

Meðfylgjandi er myndafjöld frá sjómannadeginum.

Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir