Kvennahlaup þreytt þann 02. júní

05.06 2018 - Þriðjudagur

Þann 02. júní sl. hlupu þúsundir kvenna Kvennahlaup ÍSÍ - Sjóvá. Í þeim hópi voru vopnfirskar konur. Raunar einn karlmaður og 2 ungir piltar – eru allir velkomnir ef því er að skipta. Veður var stórgott, stundum svolítil sól en umfram allt milt. Mæting var undir væntinum í ljósi hins góða veðurs en þess ber að geta að það voru nokkrar sem komu síðar, höfðu líklega litið vitlaust á klukkuna. Að vanda var létt yfir þátttakendum sem nutu samverunnar. Er þessi viðburður einn fjölmennasti íþróttaviðburður landsins ár hvert og hefur raunar borist til útlanda því einnig er hlaupið í nokkrum Evrópulöndum og í Ameríku.

 

Fyrsta Kvennahlaup ÍSÍ var haldið 30. júní árið 1990 í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ, þá var hlaupið í Garðabæ og á sjö stöðum um landið. Nú geta konur valið úr milli 80-90 hlaupastaða um allt land og víða erlendis. Stærsta hlaupið fer ávallt fram í Garðabæ þar sem þúsundir kvenna koma saman og hlaupa. En fjöldinn er ekki málið heldur sá hugur sem að baki hugmyndinn er, konur koma saman og hreyfa sig á einum tilteknum degi ár hvert á sínum forsendum – og karlar eru teknir að slást með í för.

 

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá kvennahlaupsdegi.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir