Fjölsóttur menningarviðburður og hátíðarkaffi

18.06 2018 - Mánudagur

Íslendingar tóku forskot á þjóðhátíð með 1:1 jafntefli Íslands og Argentínu sl. laugardag, hetjuleg barátta piltanna okkar setti stórstjörnur andstæðingsins út af laginu. Að leik loknum var blásið til menningarviðburðar í félagsheimilinu Miklagarði undir heitinu Vaki þjóð, ævi og störf Þorsteins Valdimarssonar skálds. Fjölmargir svöruðu kallinu en stólað hafði verið upp fyrir 112 manns í sal en áætla má að gestir hafi verið um 130. Viðburðinum tengdum var hátíðarkaffi Einherja og hefur ekki verið betur sótt um árabil.

 

Dagskrá viðburðar var allmikil að vöxtum með ýmsum erindum og söng. Trausti Þorsteinsson dósent við HA og einn aðstandenda opnaði dagskrá og á tjaldi fór systir skáldsins, Guðrún Valdimarsdóttir, með eitt ljóða skáldsins. Síðan söng Kirkjukór Vopnafjarðar 4 lög við ljóð skáldsins, 2 þeirra hafði Stephen Yates kórstjórnandi útsett. Þessu næst flutti Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir lektor við HÍ ítarlegt erindi um skáldið og ljóðagerð hans undir heitinu „Á ljóðaslóð í Svanalandinu“.

 

Guðný Alma Haraldsdóttir og Elísa Róbertsdóttir, nemendur við Tónlistarskóla Vopnafjarðar, sungu þessu næst 3 lög,IMG_5172.JPG Guðný Alma 2 og Elísa eitt. Stóðu þær sig með mikilli prýði. Örn Björnsson kennaranemi við HA flutti skemmtilegt erindi er hann nefndi „Geym vel það ei glatast má“. Karlakór Vopnafjarðar flutti 3 lög við ljóð Þorsteins undir stjórn Stephens. Hera Marín Einarsdóttir nemandi í 9. bekk las eitt ljóð skáldsins áður en Michael Jón Clarke bariton söng 4 lög við undirleik Helenu Guðlaugar Bjarnadóttur. Var það glæsilegur flutningur og má segja að eigi við framlag hvers og eins.

 

Við lok dagskrár kynnti Ágústa Þorkelsdóttir myndagrúsk Vopnfirðinga en innan um þær 13 þúsund myndir sem hópurinn hefur grúskað í eru myndir af Þorsteini að finna. Verkið hefur á síðustu misserum verið undir handleiðslu Else Möller sem tekið hafði saman myndir sem tengjast ævi Þorsteins og voru til sýnis á tjaldinu auk ljósmynda í fordyri Miklagarðs.

 

Að formlegri dagskrá menningarviðburðar lokinni var opnað á milli sala en í kaffistofu félagsheimilisins beið glæsilegt hátíðarhlaðborð Ungmennafélagsins Einherja. Að þessu sinni haldið þann 16. júní og frítt í boði samkomunnar. Að vanda höfðu hollvinir félagsins lagt félaginu til kökur og tertur, svo mikið að afgangur var þótt áætla megi að um 150 manns hafi mætt til hlaðborðs.

 

Meðfylgjandi eru myndir frá viðburðinum/kaffinu.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir