17. júní á Vopnafirði

20.06 2018 - Miðvikudagur

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní var hátíðlegur haldinn á Vopnafirði. Daginn áður var haldin myndarleg menningardagskrá í Miklagarði með þátttöku Ungmennafélagsins Einherja sem bauð til glæsilegs kaffihlaðborðs viðburðinum tengdum. Félagið kemur ávallt að dagskrá þjóðhátíðar og var svo einnig nú. Veður lék við Vopnfirðinga þennan dag sem mættu ágætlega til hátíðargöngu en samkvæmt hefð sl. ára var gengið frá félagsheimilinu að skólasvæðinu. Setti svip á gönguna að í öflugum hátalaranum hljómuðu ættjarðalög.

 

Í hlutverk fjallkonunnar brá sér Gígja Björg Höskuldsdóttir og stóð sig með sóma. Ræðumaður dagsins var Sigríður Bragadóttir oddviti sveitarfélagsins. Í framhaldi af formlegri dagskrá var hátíðleikanum ýtt til hliðar og við tóku hinir ýmsu leikir með þátttöku ungviðisins. Fólk skemmti sér með ágætum enda maður manns gaman.

 

Klukkan 14 bauðst íbúum að sækja hátíðarmessu í Hofskirkju. Þar skyldu 4 börn verða innvígð í samfélag fullorðinna og var hvert sæti skipað í kirkjunni, nokkur sæti laus á svölum. Var notalegt að hreiðra um sig í Hofkirkju og hlýða á messu.

 

Tíðindamaður var á vettvangi viðburða með myndavélina í hönd og eru meðfylgjandi myndir af þjóðhátíðardeginum sl. sunnudag.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir