Örn Björnsson – erindi á Vaki þjóð

21.06 2018 - Fimmtudagur

Á menningarviðburðinum Vaki þjóð, ævi og störf Þorsteins Valdimarssonar, flutti kennaraneminn og Vopnfirðingurinn Örn Björnsson erindi. Nefndi hann erindið „Geym vel það ei glatast má“. Vakti erindið athygli og birtist það hér í heild sinni. Um er ræða töluverðan texta sem er bæði athyglisverður og ánægjulegur aflestrar.


Afmælishátíð Þorsteins Valdimarssonar á Vopnafirði 16. júní 2018.

Erindi

“Geym vel það ei glatast má” - Örn Björnsson

 

Á undanförnum áratugum hefur heimssamfélag okkar gengið í gegn um miklar breytingar. Breytingarnar eru svo miklar að við, sem erum af minni kynslóð, getum ómögulega sett okkur í spor þeirra sem lifðu fyrir 100 árum síðan. Við getum gert okkar besta til þess að ímynda okkur líf þeirra en við getum alls ekki sett okkur í þeirra spor.

 

Meðal þess sem breyst hefur mikið, er það sem mér er oft hugleikið. Það eru grunnstoðirnar - uppeldið og fræðslan. Við lifum við talsverða menningarbundna sérstöðu hér á landi og er hana t.d. að finna í tungumáli okkar sem hefur fengið að berast kynslóða á milli með auðæfum menningararfsins. Þar er hægt að benda á mikilvægi baðstofunnar, þar sem að auðæfin fluttust frá eldri kynslóðum til þeirra yngri.

Þessi menning breyttist svo, og til batnaðar í flestum tilfellum, en þó held ég að íslenskt samfélag gæti þurft að rétta stýrið af um einhverjar gráður.

 

Tækninýungar og aukin hnattvæðing hafa orðið til þess að uppeldi og lífstíll yngri kynslóða er mjög frábrugðinn því sem áður var. Nú er nauðsynlegt að taka það fram: Að heimildir sýna okkur að eldri kynslóðir hafi alltaf haft áhyggjur af unga fólkinu. Að þróun yngstu kynslóða muni leiða þær til glötunar. Þetta er eðlilegt. Hins vegar þýðir það ekki að slíkar áhyggjur séu aldrei marktækar. Í dag höfum við áhyggjur af snjalltækjanotkun ungmenna og fullorðinna, en sú þróun mun óneitanlega hafa áhrif á samfélag okkar. Kannski mun hún þó hafa önnur áhrif á okkur en við höldum. Hvað með sjálfsvitund þjóðarinnar?

 

Sjálfsvitund er áhugavert fyrirbæri og það er gaman að velta því fyrir sér, hvað það er sem skapar sjálfsvitund okkar. Til dæmis með eineggja tvíbura, sem alast upp við nákvæmlega sömu aðstæður og fylgjast alltaf að. Afhverju eru þeir með ólíka sjálfsvitund. Afhverju hefur einn áhuga á listum en hinn íþróttum? Afhverju er annar sjálfsöruggur en hinn ekki? Afhverju er annar fyndinn en hinn ófyndinn? Sjálfsvitund er sögð byggja á nokkrum grunnstoðum. Þar má nefna; Umhverfi, sögu, samfélag og fleira.

 

IMG_5166.JPGÉg kýs að líta á sjálfsvitund mína eins og hún sé stór pottur af súpu. Það eru mörg innihaldsefni í súpunni og þarna mallar hún. Súpan mín er eins og hún er vegna þess sem sett var í pottinn. Hvort hún sé góð eða slæm, er ekki mitt að dæma. Mér finnst hún ágæt.

 

Ég hef ákveðna mynd af sjálfum mér og margt sem ég einkenni mig við. Ég er faðir, Vopnfirðingur, landsbyggðarbúi, úr 89’ árgangnum, miðjubarn og margt fleira. Þetta er ég. Uppskrift af Erni og allt mallar þetta saman í súpupottinum mínum með ótal öðrum innihaldsefnum. Ef ég myndi fjarlægja eitt innihaldsefni - myndi þá súpan bragðast eins? Það er ekki víst. Ef ég hefði aldrei fengið áhuga á fótbolta, væri ég þá nákvæmlega eins og ég er í dag? Sennilega væri ég svipaður sjálfum mér en þó eitthvað öðruvísi. Hvað ef ég hefði sleppt bragðsterkara innihaldsefni? Hvað ef ég hefði alist upp í Reykjavík? Væri ég eins? Hvað ef ég hefði ekki alist upp á Íslandi? Hvað ef ég hefði ekki fæðst með sjón eða heimili?

 

Svona erum við samsett, úr mörgum og misbragðmiklum innihaldsefnum. Við einkennum okkur við allt. Við erum Austfirðingar, Vopnfirðingar, landsbyggðarbúar, bændur, sjómenn, listamenn, Framsóknarmenn, flipparar, pönkarar, Hofsárdælingar, aðkomumenn, útlendingar og margt fleira.

Afhverju þurfum við að einkenna okkur við eitthvað? Afhverju flokkum við allt fólk eftir einstökum einkennum? Ég held að það sé kannski til þess að tengja okkur saman (eða greina í sundur ef það hentar), því þannig erum við aldrei ein á báti. Hvernig er að rekast á Íslending í útlöndum? Þó við játum það ekki alltaf, þá er það nokkuð góð tilfinning - öryggi. Einhver sem er eins og við.

 

Við erum eins að einhverju leyti. Sem betur fer erum við ekki alveg eins en við eigum margt sameiginlegt. Við erum afurð margra alda ræktunar og við högum okkur oft eftir fordæmi forfeðra okkar. Við vitum alveg hvað er hættulegt og hvað ekki. Hvað er skynsamleg hegðun og hvað ekki. Þetta er þekking sem þróunin hefur kennt okkur. Við erum afkvæmi þeirra sem lifðu af og gátu lifað í samfélagi. Til dæmis má rökstyðja það að Jesú Kristur og fleira séu hugmyndir sem byggja á mun eldri lífsreglum. Þetta eru leiðbeiningar um það hvernig skal haga sér - fyrirmynd fyrir okkur að fylgja. Í dag höfum við ofurhetjumyndir - sem eru ekkert annað en helgisögur með tæknibrellum. Þetta eru vinsælustu kvikmyndir allra tíma.

 

Þessar samfélagslegu leikreglur eru byggðar á óteljandi atvikum og fordæmum og ef til vill er ekki of skynsamlegt að kasta öllum trúmálum og menningararfi út um gluggann á sama tíma.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þessa laug. Mér var kennt af Siggu Ömmu að trúmál og pólitík ætti ekki að ræða, við neinn. Hins vegar vil ég eyða orðum í menningararf. Ég hef áhyggjur af því að hann færist í sífellt minna magni milli kynslóðana. Við höfum ekki enn fundið jafn góða flutningsleið og baðstofan var.

 

Í dag er alltaf litið til grunnskólanna. Ef þið fylgist með fólki sem talar opinberlega um skólakerfið þá syngja allir í kór. Það þarf að stokka upp í skólakerfinu. Þetta er talin vera aðalástæðan fyrir því að mörg börn eiga erfitt uppdráttar í skólum, kennarar starfi við erfiðar aðstæður, samræmdar kannanir segja börnin ólæs o.s.frv. Þetta er allt skólunum að kenna, segja margir. Flestir sem þekkja vel til skólamála eru þó sammála um það að starfsfólkið leggur hart að sér, kemur vel fram og stendur sig vel. Samt þarf að stokka upp í þessu... Skólastarfsmenn til fleiri ára vita að stokkunin er ekki ný hugmynd og í raun má segja að það sé búið að stokka í skólakerfinu í allavega 30 ár.

 

Ég held að þessi misskilningur liggi í því að í dag eru margir sem líta svo á að grunnskólinn sé staðurinn þar sem að börn læra allt sem þau þurfa að læra fyrir framtíðina.

 

Það er vissulega markmið skólanna, að gefa börnum sem flest verkfæri til þess að vinna með í framtíðinni. Það hefur samt aldrei verið þannig að börn læri allt sem þau þurfa í skólanum. Það hefur ekki einu sinni verið þannig að börn fái flest sín verkfæri í skólum - ekki nálægt því. Það hefur alltaf verið þannig að börn læra nánast allt af fyrirmyndunum í kring um þau.

 

Ef við förum aftur í sjálfsvitundarsúpuna: Hversu mörg innihaldsefni fenguð þið í grunnskóla? Hversu stór hluti af sjálfsmynd ykkar er fenginn úr grunnskóla? Aftur á móti ef við lítum til foreldra, umhverfis eða annarra áhrifavalda. Hversu margt í fari ykkar er lærð hegðun frá uppalendum?

 

Skólar eru ekki mikilvægasti þátturinn í uppeldi barna. Þeir hafa aldrei verið það og ég vona að þeir verði það aldrei. Það sem hlýtur alltaf að vera mikilvægast er það heimili og samfélag sem barnið elst upp í. Þar á menningararfurinn einmitt að berast.

 

Stór hluti af mér kemur af því að ég er Svínabakkamaður, alinn upp af Svínabakkamanni sem alinn var upp af Svínabakkamanni. Ég er ekki síður eins og ég er af því að ég var alinn upp af mömmu, sem var alin upp í Stuðlabergi af afa og ömmu.

Þó ég kunni ekki að skilgreina það þá er ég samt líka eins og ég er vegna þess að Ólafía langamma var að vestan og útaf síldarárunum, frostavetrinum, Örum&Wulff, einokunarversluninni, og móðuharðindunum. Ég er eins og ég er vegna þess að fjölskylda langaafa míns flutti frá Valþjófsstað til Ljótsstaða í leit að betra lífi og ég er eins og ég er vegna þess hversu grjótharðar ömmur komu að uppeldi mínu.

 

Þetta er allt í súpunni.

 

Ég vil að nærsamfélagið og átthagafræðsla eigi stærri þátt í grunnskólastarfi en það sem mér finnst mikilvægast er það að við öll, sem samfélag, rifjum upp skyldur okkar. Foreldrar okkar voru burðarstólpi í uppfræðslu okkar, foreldrar þeirra gerðu það sama og þetta hefur alltaf verið þannig. Það er ekkert breytt. Skólar eiga ekki að bera mesta ábyrgð á námi barna - við eigum að gera það. Sérstaklega þegar kemur að menningararfi. Mömmur, pabbar, afar og ömmur. Við erum öll saman í þessu. Skólar eru nauðsynlegir og gríðarlega góðir - en þeir geta ekki haft jafn mikil áhrif og við.

 

Við þurfum að líta í spegilinn. Við getum ekki ætlast til þess að börnin okkar séu fluglæs og margfróð um Þorstein Valdimarsson eða annað mikilvægt ef við leggjum ekki línurnar með góðu fordæmi. Það er ekkert skrítið að barn hafi engann áhuga á lestri ef foreldrar þess lesa aldrei. Börnin læra af því sem þau sjá aðra gera - ekki því sem þeim er sagt að gera.

 

Það er margt einstakt við íslenska þjóðmenningu og má þar til dæmis benda á þá miklu þrautseigju, dugnað, lausnamiðun og samstöðu sem forverar okkar hafa þurft að hafa til þess að byggja það vellystingasamfélag sem við hér, höfum vanist. Við viljum ekki tapa þessum góðu eiginleikum, við viljum halda þeirri sérstöðu sem við erum stolt af. Þess vegna þurfum við menningararf.

 

Það er ekki bara þjóðrembingur að hreykja sig af þeim íslendingum sem ná heimsfrægð. Það er sama hvort það eru rithöfundar, tónlistarfólk, íþróttafólk eða annað afreksfólk. Það er ástæða fyrir því að svo margir Íslendingar hafa náð langt - og það er: sérstaðan..., menningararfurinn og umhverfið. Einhver nýr tónn sem hafði ekki heyrst áður.

 

Það er eitthvað sem við smitumst af frá umhverfi okkar og menningu. Eitthvað sem við sjáum ekki né finnum fyrir. Eitthvað sem við vitum ekki einu sinni af en þekkjum í hvort öðru. Einhver keimur, angan eða ómur. Eitthvað sérstakt sem við megum ekki glata.

 

Því það er ekki víst, að súpan bragðist betur án þess.

Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir