Ný trjátegund á Vopnafirði

29.06 2018 - Föstudagur

Skógfræðingurinn Else Möller er stöðugt á vaktinni þegar náttúran á í hlut og svo virðist sem hún hafi uppgötvað nýja trjátegund í Vopnafirði, sbr. fyrirsögn fréttar. Hafði Else samband við tíðindamann hér að lútandi enda um athyglisverða frétt að ræða. Kvað hún það hafa lengi verið trú manna að ekki væri hægt að rækta tré í Vopnafirði. Annað hefði komið á daginn því hér þrífast margar tegundir, þær hæstu trúlega komnar vel yfir 10 metra. Sífellt bætist við flóruna, vaxtarskilyrðin eru býsna góð og með svolítilli aukaumönnun er jafnvel hægt að rækta tegundir eins og eik, álm, ask og eplatré.

 

Else segir svo frá: Nýlega bættist svo ný og einkar áhugaverð tegund við sem ekki hefur sést áður og virðist mjög sjálfgæf á Íslandi. Tréð er að finna skammt utan þorpsins, nánar tiltekið nálægt bæjartóftum Hlíðarenda á norðanverðum Tangasporði. Tréð er sérstak afbrigði af ösp (Populus) allt að 5 metrar á hæð með ákaflega sérstaka ávexti. Það sem einkennir þessa ávexti eru skærir litir og einkennileg form. Svo virðist sem ávextirnir bætist við hvenær sem er á árinu, það eitt gerir tréð einstakt. Ákveðið hefur verið að gefa trénu nafnið Snuddutré eða Populus gummata.

 

Á því leikur ekki vafi að áhugavert verður að fylgjast með þroska trésins á komandi árum. Mun ávöxtum fjölga? Koma nýir litir? Eða hverfa ávextirnir? Og síðast en ekki síst, á tréð eftir að fjölga sér á landsvísu?

 

Meðfylgjandi myndir tók Else.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir