Af Vopnaskaki

05.07 2018 - Fimmtudagur

Frá því var greint í gær að Vopnaskak þessa árs myndi hefjast formlega þann dag. Á Vopnafjarðarvelli skyldi leikin knattspyrna í 5. flokki kvenna með þátttöku Einherja og 3ja annarra liða. Var leikið við blautar aðstæður og svalar, í einföldu máli var um hráslagalegan júlídag að ræða. Þannig er íslenskt sumar og aldrei á vísan að róa. Síðar sama dag var m.a. boðið upp á vatnsrennibraut neðan Kolbeinsgötunnar og það kunna börnin sannarlega að meta og fullorðnir raunar ekkert síður. Var kátt á hjalla er tíðindamann bar að garði.

 

Að kvöldi dags var dagskrá í Miklagarði undir heitinu Til heiðurs Erlu skáldkonu sem gjarnan er kennd við Teig í Vopnafirði en þar bjó hún um 27 ára skeið. Hefur Baldvin Eyjólfsson gert lög við 15 ljóð skáldkonunnar og voru 10 þeirra frumflutt á skemmtuninni en 5 höfðu áður heyrst opinberlega. Naut Baldvin fulltingis söngvara og hljóðfæraleikara úr hópi heimafólks en þáttur Stephen Yates var mikill þótt fjarverandi væri. Þá er tölvan gulls ígildi. Kvöldið staðfesti með óyggjandi hætti hversu mikilhæfur tónlistarmaður Baldvin er. Hvert lagið var öðru fegurra og eins þau hljómuðu í eyrum tíðindamanns féllu þau einkar vel að textum skáldkonunnar. Sum hver voru hlaðin dramatík meðan léttar var yfir öðrum. Var flutningurinn auk heldur hlutaðeigendum til sóma. Í lok tónleika lét Baldvin þess getið að hann stefndi að því að vinna lögin áfram, útsetja fyrir stóra hlómsveit og koma þeim á hljómdisk. Mun tónlist Baldvins án alls efa verða góð viðbót við íslenska tónlistarflóru.

 

Meðfylgjandi eru myndir af Vopnafjarðarvelli og vatnsrennibraut. Góðar myndir eru til af tónlistarviðburðinum má gera ráð fyrir þótt tíðindamaður væri án myndavélarinnar að þessu sinni.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir