Nóg um að vera um helgina

06.07 2018 - Föstudagur

Bæjarhátíðin Vopnaskak heldur áfram í dag og um helgina en hátíðinni lýkur með Bustarfellsdeginum á sunnudag. Fram að þeim tíma er margt í boði fyrir Vopnfirðinga og gesti. Strax kl. 12 á hádegi dagsins í dag er danspartí í íþróttahúsinu og dagskráin þar með komin af stað þennan daginn. Vísað er til dagskrár hátíðar meðfylgjandi frétt þann 27. júlí sl.

 

Í Fiskmarkaðnum opnar myndlistarsýningin Út fyrir rammann í fiskmarkaðnum kl. 15. Markaðstorg við Kauptún milli kl. 16-19 hvar ýmislegt er í boði og fremur seint í kvöld eða kl. 21:30 er komið að stórtónleikum Stjórnarinnar í Miklagarði en sveitin fagnar 30 ára starfsamæli um þessar mundir og gerir víðreist líkt og í gamla daga þegar sveitaböll stóðu undir nafni.

 

Á morgun, laugardag 07. júlí, er ratleikur í Oddnýjarlundi sem hefst kl. 11 og er skráning á staðnum. Að ratleik loknum eru pylsur í boði. Grúskað verður í myndum í Sambúð milli kl. 13-15 en kl. 14 hefst leikur Einherja og Ægis á Vopnafjarðarvelli. Mikið er undir í þessum leik en liðin eru þegar mót er hálfnað í 3 neðstu sætum deildarinnar ásamt Sindra. Hvert stig er því okkar strákum afar mikilvægt og stuðningur heimamanna getur skipt sköpum.IMG_0412.JPG

 

Kl. 20 er kjötsúpukvöld með brekkusöng og hoppköstulum við Vopnafjarðarskóla. Pétur Jesú söngvari Buffs mun sjá um að stýra brekkusöng. Fólk er hvatt til þess að mæta í sínum hverfislit. Kl. 23 er komið að Hofsballi sem auglýst er sem alvöru sveitaball með lopapeysustemningu. Hljómsveitin Buff leikur fyrir dansi og þeir sem þá reyndu hér um árið vita að á Hofsballi verður gaman. Sundleið býður upp á sætaferðir til og frá Starðarholti.

 

Golfarar þessa samfélags og aðkomnir eru minntir á golfmót Golfklúbbs Vopnafjarðar er hefst kl. 11. Kl. 13:00 til 17:00 er Bustarfellsdagurinn og er að vanda margt í boði. Ítrekað er að dagskrá hátíðar inniheldur breiðari dagskrá en nefnt er hér. Nefna má tilboð í veitingahúsum sveitarfélagsins, Hótel Tanga, Síreksstöðum, Kaupvangskaffi og Ollasjoppu.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir