Skemmtiferðaskipið Seabourn Quest á Vopnafirði

30.07 2018 - Mánudagur

Að morgni sunnudagsins 29. júlí sl. sigldi inn Vopnafjörð voldugt skemmtiferðaskip en tæplega 200 metra langt skip telst til hinna stærri. Nafn skipsins er Seabourn Quest og er eitt skipa Seabourn Cruise Line sem skráð er í Nassau á Bahamaeyjum skammt undan ströndum BNA. Allt til 1973 lutu eyjarnar stjórn Breta. Það væsir vart um gesti um borð í skipi sem þessu en hámarksfjöldi farþega er 450 er njóta þjónustu 335 manna starfsliðs.

 

Mun það hafa verið að frumkvæði ferðaskrifstofunnar íslensku að Vopnafjörður var valinn sem áfangastaður á ferð skipsins við Íslandsstrendur og þótt ýmislegt megi án efa betur gera stóðu Vopnfirðingar sig vel. Það er í mörg horn að líta þegar slíkur fjöldi sækir sveitarfélagið heim á skömmum tíma en þótt okkur kunni að þykja Kaupvangur þokkalega stór bygging mátti hún ekki minni vera þegar flestir voru saman komir í húsinu. Einkum var anddyrið og gangurinn niðri flöskuhálsinn en allt hafðist þetta og gestir sáttir við þjónustuna og viðmótið. Þeir gestir sem tíðindamaður ræddi við og voru býsna margir rómuðu þennan litla stað og náttúruna svo sem þau áttu kost að sjá. Óskandi er að þessi heimsókn marki upphaf af reglubundnum ferðum slíkra skipa til Vopnafjarðar.

 

Meðfylgjandi eru annars vegar myndir er tíðindamaður tók, hins vegar myndir Björgvins Agnars Hreinssonar sem fór um borð í hið glæsta fley ásamt starfsmönnum þjónustumiðstöðvar er unnu gott verk í þágu sveitarfélgsins líkt og oft áður.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir