Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum aldrei hærra

15.08 2018 - Miðvikudagur

Nærfellt annar hver sveitarstjórnarmaður er kona og hefur hlutur kvenna aldrei verið meiri en nú eða 47,2% skv. Sveitarstjórnarmálum. Kjörnum sveitarstjórnarmönnum hefur fækkað jafnt og þétt með fækkun sveitarfélaga en sem dæmi sátu alls 981 einstaklingur í sveitarstjórn 1998 en eru nú 502. Fyrir 20 árum voru sveitarfélögin 124 en eru nú 72.

 

Í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps sitja 7 fulltrúar og jafn margir til vara. Skipting aðalmanna með þeim hætti að karlar eru 5 á móti 2 konum eða um 70% karlar á móti 30% kvenna. Sé litið til aðal- og varamanna er skiptingin 7-7, þ.e. hlutfall kynja er viðsnúið meðal varamanna.

 

Hvað endurnýjun kjörinni fulltrúa áhrærir, þ.e. fjölda þeirra sem ekki áttu sæti í sveitarstjórn sem aðalmenn á síðasta kjörtímabili, þá eru þeir 291 eða 58,4%. Samsvarandi hlutfall eftir þarsíðustu kosningar var 54,4% og 57,4% árið 2010. Þegar er rætt um endurnýjun kjörinna fulltrúa geta ýmsar skýringar átt við aðrar en hvort viðkomandi fulltrúi sé nýr á vettvangi sveitarstjórnarmála.

 

Í einhverjum tilvikum kann aðalmaður að hafa setið áður sem varamaður í sveitarstjórninni eða sem aðalmaður á öðru kjörtímabili – og í enn öðrum tilfellum kann hlutaðeigandi hafa fært sig á milli sveitarfélaga. Nýir sveitarstjórnarmenn geta þess vegna haft reynslu í sveitarstjórnarmálum í einhverjum tilvikum enda þótt tala nýrra sveitarstjórnarmanna gefi annað til kynna.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir