Einherji í aðalhlutverki um helgina

17.08 2018 - Föstudagur

Langt er liðið á sumar og smám saman mun vetrarstarfið taka við, skólar landsins eru sem dæmi að hefjast þessa dagana. Lið Vopnfirðinga, sem tæplega þarf að nefna á nafn, stendur í ströngu um helgina en á Vopnafjarðarvelli verða leiknir 3 leikir á tímabilinu föstudagur 17. til og með mánudagur 20. Stúlkurnar í meistaraflokki ríða á vaðið með leik í kvöld gegn toppliði Tindastóls með markhæsta leikmann deildarinnar innan vébanda sinna, Murielle Tiernan. Athuga að leikurinn hefst kl. 18:15.

 

Á morgun kl. 14:00 mæta piltarnir í meistaraflokki Einherja liði KH úr Hlíðarhverfinu í Reykjavík sem er í 2. sæti deildarinnar nú um stundir. Vann KH Einherja 3:2 í fyrri leik liðanna með marki á lokasekúndum leiksins. Það væri ljúft að geta snúið þeim úrslitum við en ljóst er að í vændum er erfiður leikur enda gælir KH við að komast upp á milli deilda.  .

 

Loks verður leikið í 4. flokki stúlkna á mánudag kl. 17:00 er Einherji/Sindri leikur gegn Völsungi í E-riðli A-liða. Liðin hafa leikið mismarga leiki en nokkrum leikjum Einherja/Sindra var frestað fyrr á sumrinu og verður ágústmánuður þar af leiðandi annasamur. Hingað til hefur ekkert lið staðist okkar stúlkum snúning og hafa því allir 5 leikirnir unnist en reikna má með hörkuleik því lið Völsungs er vel skipað.

 

Meðfylgjandi mynd tók Baldur Kjartansson af sjónvarpsskjánum og sýnir mynd RAX, Ragnars Axelssonar, sem birtist í þættinum Andlit norðursins á RUV. Er um að ræða fyrstu íþróttamynd RAX fyrir Morgunblaðið þá 16 ára sem þýðir að myndin er líklega tekin árið 1975 (RAX þá á 17da ári)  og er fremstur í mynd Ingólfur Sveinsson. Auk þeirra má greina Helga Ásgeirsson og Steindór bróður Ingólfs. Frábær mynd!
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir