Skólasetning Vopnafjarðarskóla

21.08 2018 - Þriðjudagur

Í dag var Vopnafjarðarskóli settur í sal skólans að viðstöddum nemendum, aðstandendum þeirra og starfsfólki. Að vanda kom í hlut skólastjórans Aðalbjörns Björnssonar að ávarpa gesti og fór í suttu máli yfir starfið í vetur, þakkaði þeim starfsmönnum sem hverfa af vettvangi og bauð nýja velkomna. Að vanda bauð Aðalbjörn nýnema, sem eru 7 að tölu, sérstaklega velkomna og beindi síðan orðum sínum til þeirra elstu sem fyrirmyndir hinna ungu skólasystkina.

 

Gat skólastjóri þess að eins yndislegt fríið er með frelsi sínu og möguleikum til langra daga er gott að fá festu á líf sitt að nýju. Mikilvægt væri að nemendur sinntu námi sínu af festu þegar frá upphafi, það myndi alltaf koma sér vel. Skóli hefst svo á morgun af krafti þó nemendur fái aukatíma til rúmlegu því skóli hefst kl. 08:50 í stað 08:15 venjulega.

 

Ekki var dvalið lengi við heldur fóru nemendur með umsjónarkennurum í stofur sínar. Eru nemendur skólans 79 við upphaf skólaárs og hefur fækkað um 7 frá sl. ári. Má vænta þess nemendum haldi áfram að fækka miðað við fæðingatölur uns jafnvægi verður náð en síðari ár hefur átt sér stað jákvæður viðsnúningur.IMG_7262.JPG

 

Hefðbundið skólastarf hefst þannig á morgun og má reikna með að einn og einn nemandi verði ögn þreytulegur því nokkra daga tekur að vinda ofan af vöku- og svefnvenjum eftir frítíma sumarsins. Það er gömul saga og ný en smám saman næst jöfnuður á tilvistina og skólinn jafn ómissandi og nýafstaðið fríið. Fá nemendur sem og starfslið bestu kveðjur á þessum vettvangi með þeim einlægu óskum að öllum muni farnast vel.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir