Náms- og atvinnulífssýningin Að heiman og heim

04.09 2018 - Þriðjudagur

Vopnafjarðarhreppur var meðal þátttakenda á náms- og atvinnulífssýningunni Að heiman og heim sem haldin var að frumkvæði félagsins Ungt Austurland. Var sýningin haldin sl. laugardag í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Sótti sýninguna fjöldi fólks, stórt húsið tók auðveldlega við þeim fjölda en sýnendur voru sammála um að markhópurinn, unga fólkið, hefði mátt sýna málefninu meiri áhuga. Hvað sýning sem þessi skilar fyrir t.a.m. Vopnafjörð skal ósagt látið en fulltrúar sveitarfélagsins lögðu sig fram um að taka vel á móti hverjum þeim er í básinn kom, birtingarmyndin var á allan hátt jákvæð. 

Um 50 fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök kynntu starfsemi sína og voru auk báss Vopnafjarðarhrepps básar Bíla og véla og HB Granda að finna á sýningunni. Fjölbreytni atvinnulífsins á Austurlandi er líklega meiri en margur hyggur og það eru tækifæri fyrir ungt fólk, einkum þeirra sem frumkvæði hafa að gera eitthvað sjálf, flytja með sér störf og/eða skapa ný. Svo sem fram kom í verkefninu Veljum Vopnafjörð eru til staðar hugmyndir en spurningin er auðvitað sú hvort þær sé gerlegt að raungera. Ári eftir lok verkefnisins er full ástæða til að horfa til þess og ígrunda tilgang þess, sbr.: Í verkefninu Veljum Vopnafjörð taka Vopnafjarðarhreppur og íbúar höndum saman um að virkja þann kraft sem býr í Vopnfirðingum, til að efla byggð til framtíðar.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir