Deiliskipulag íþróttasvæðis samþykkt í sveitarstjórn

10.09 2018 - Mánudagur

Á fundi sveitarstjórnar sl. fimmtudag lá meðal annars fyrir til samþykktar deiliskipulagstillaga íþróttasvæðis Vopnafjarðar sem verið hefur til kynningar á skrifstofu sveitarfélagsins og hér á heimasíðu þess sl. vikur en lögbundið auglýsingaferli er 6 vikur. Var tillagan samhljóða samþykkt hvað þýðir að skipulagið hefur hlotið endanlega afgreiðslu af hendi sveitarfélagsins.

 

Áður lá tillagan fyrir sveitarstjórn 20. júní sl. að undangenginni umfjöllun og afgreiðslu í skipulags- og umhverfisnefnd. Deiliskipulagið fer nú fyrir Skipulagsstofnun til afgreiðslu en stofnunin hefur allt að 3 vikur til þess. Að lokinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar öðlast skipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

 

Deiliskipulagsgerð spannar býsna langt ferli sem ber að fylgja og að borðinu eru kallaðir ýmsir umsagnaraðilar, sbr.:

 

  • Skipulagsstofnun skv. skipulagslögum nr. 123/2010
  • Umhverfisstofnun
  • Minjastofnun Íslands
  • Heilbrigðiseftirlit Austurlands
  • Náttúrufræðistofnun Íslands

 

Verkefnalýsing fyrir deiliskipulagið er kynnt íbúum og mögulegum hagsmunaaðilum innan svæðisins svo sem fyrr greinir. Á tíma auglýsingaferils gefst þeim sem það vilja kostur á að koma á framfæri ábendingum og umsögnum sem skulu vera skriflegar og þær formlega skráðar. Eru ábendingar og umsagnir teknar til skoðunar inn í vinnu við deiliskipulagsgerðina og þeim formlega svarað.

 

Nú liggur fyrir að innan skamms getur vinna hafist við vallarhúsið en það er sveitarstjórnar að ákvarða hvenær jarðvinna hefst og hversu mikið verður gert á árinu. Í öllu falli er lögbundið skipulagsferli brátt að baki og framundan spennandi verkefni við byggingu þessa glæsilega húss.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir