15 kílómetra hámarkshraði á skólasvæðinu

19.09 2018 - Miðvikudagur

Starfsmenn þjónustumiðstöðvar unnu að uppsetningu skilta við hraðahindranir á Lónabraut er ramma inn skólasvæði sveitarfélagsins sl. mánudag. Skiltin, 15 km./klst., eru staðfesting þess að sá hluti Lónabrautar sem innan marka hraðahindrana er skilgreinist sem vistgata. Nánar tiltekið svæðið milli grunn- og leikskólans í suðri allt út fyrir íþróttahúsið í norðri. Fara þarf allt aftur til ársins 2015 til að reifa málið en á fundi skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins hinn 27. janúar var samþykkt að leggja fyrir sveitarstjórn tilteknar tillögur um leyfilegan hámarkshraða í þéttbýlinu. Þær voru samþykktar á fundi sveitarstjórnar þann 05. febrúar s.á.

 

Í frétt hér á heimasíðu sveitarfélagsins 29. janúar 2015 var frá því greint að mörg sveitarfélög á Íslandi hafi unnið umferðaröryggisáætlun að markmiði að auka öryggi íbúa hlutaðeigandi sveitarfélags. Jafnframt skýrslugerð eru íbúafundir haldnir til að tryggja upplýsingagjöf og almenna þátttöku.

 

Hraði er talinn vera einn mikilvægasti þátturinn í umferðaröryggi. Hraði hefur ekki aðeins áhrif á hversu alvarleg slysin verða, heldur hefur hann einnig áhrif á líkur þess að lenda í slysi. Orsakir slysa eru margar og áhrifavaldarnir einnig. Dæmi um áhrifavalda að slysum er: veður, færð, ástand vegar, ástand ökutækis, umferðarþungi, ástand ökumanns t.d. þreyta eða undir áhrifum áfengis, athygli ökumanns og hraði. Oft eru fleiri en einn áhrifavaldur að slysi.

 

Við þekkjum vel skilaboðin „Hraðinn drepur“ og er hafið yfir allan vafa að hraði ökutækis getur skilið milli feigs og ófeigs. Þannig eru 40% meiri líkur á banaslysi við árekstur ökutækis og gangandi vegfaranda sé ekið á 40 km./klst. í stað 30 km./klst. og 80% sé ekið á 50 km./klst. Þetta virðast ótrúlegar tölur en við nánari ígrundun vitum við sem er að mannslíkaminn má sín lítils gegn vélknúnum ökutækjum sem eru 10 til 100 sinnum þyngri en meðalmaðurinn.

 

Góð reynsla er af s.k. 30 km. hverfum, það höfum við reynt hér. Markmiðið er skýrt, þ.e. að draga úr umferð þar sem mikið er um gangandi vegfarendur og/eða aðstæður til aksturs erfiðari en utan hverfisins. Ákvörðun hér um byggir á vísindalegum forsendum um þolmörk óvarinna vegfarenda í árekstrum við ökutæki. Hið sama á við um svonefndar vistgötur þar sem hraðinn er í raun miðaður við gangandi vegfarendur þó almennt sé talað um 15 km./klst. Vistgata skilgreinist:

 

Vistgata er gata þar sem umferð gangandi vegfarenda og hægfara faratækja — eins og reiðhjóla, hjólaskauta eða hjólabretta — hefur forgang fram yfir umferð bíla. Venjulega er hraði takmarkaður við gönguhraða og gangandi vegfarendum, börnum að leik o. s. frv. er heimilt að nota götuna til jafns við bíla. Slíkar götur eru hannaðar með því augnmiði að minnka hraða bifreiða, t. d. með hraðahindrunum og með því að hafa bílastæði til skiptis öðrum hvorum megin götunnar. Vistgata þýðir í einföldu máli að gangandi vegfarandi á höfuðrétt og akstur á skólatíma því takmarkaður sem mest má vera.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir