VÍS lokar umboðsskriftstofu sinni á Vopnafirði

24.09 2018 - Mánudagur

VÍS hefur ákveðið að sameina þjónustuskrifstofur fyrirtækisins víðsvegar um landið í sex skrifstofur; á Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri, Sauðárkróki, Ísafirði og Reykjavík. Skrifstofurnar voru áður þrettán, þar á meðal á Vopnafirði. Á vef fyrirtækisins segir að þetta sé gert í samræmi við nýja framtíðarsýn fyrirtækisins um að verða stafrænt þjónustufyrirtæki. Breytingarnar taka gildi 1. október næstkomandi.

 

„Við mótuðum nýlega skýra framtíðarsýn um að VÍS verði stafrænt þjónustufyrirtæki. Breytingarnar sem við gerum núna eru í takt við þá sýn og er ætlað samræma þjónustuna okkar og laga hana enn betur að þörfum viðskiptavina sem vilja einföld, flækjulaus og skilvirk tryggingaviðskipti. Við sjáum skýr merki um að viðskiptavinir okkar vilja í síauknum mæli nota stafrænar leiðir til að eiga við okkur samskipti. Okkar trú er að sú eftirspurn fari vaxandi og kjarninn í okkar vegferð næstu misseri verður efla þjónustuna okkar á því sviði,“ segir Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, á vef VÍS.

 

Þeir sem reynt hafa þjónustu VÍS á Vopnafirði vita að hún hefur verið einföld, flækjulaus og skilvirk. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að það er betri þjónusta að eiga þess kost að vera í beinum samskiptum við starfsmann og geta kallað hann til þegar á þarf að halda. Allt er breytingum undirorpið og þær gerast hraðar en nokkru sinni. Með lokuninni minnkar þjónstustigið í sveitarfélaginu og það stöðugildinu fátækara.

 

Margir eru óánægðir með þessa ákvörðun VÍS. Á haustþingi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi nýverið var samþykkt ályktun þar sem skorað er á íbúa, fyrirtæki og sveitarfélög að endurskoða viðskipti sín við VÍS. Ástæðan er sú að loka á þjónustuskrifstofum VÍS á Akranesi og í Borgarnesi um mánaðamótin. Þess má geta að lífeyrissjóðir launafólks eiga 43,9% í VÍS.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir