Makrílvertíð brátt lokið

26.09 2018 - Miðvikudagur

Á heimasíðu HB Granda hf. er greint frá að vel hafi gengið í makrílvinnslunni hjá félaginu á Vopnafirði í sumar og styttist í að kvóta ársins verði náð. Vitnað er í Magnús Þór Róbertsson vinnslustjóra sem segir makrílinn stóran og góðan og meðalvigtin í sumar hafi verið 450 til 470 grömm. Eins er rætt við Albert Sigurðsson skipstjóra á Víkingi AK er lýsti ánægju sinni aflokinni veiðiferð og sagði: „Við erum með rúm 1.100 tonn og megnið af aflanum fékkst í aðeins þremur holum. Makríllinn hefur stækkað eftir því sem liðið hefur á sumarið og fiskurinn í fyrsta holinu okkar var að jafnaði rúmlega 500 gramma þungur.“

 

Það eru gleðifregnir þegar vel gengur í útgerðinni og fyrir okkur einkum hjá HB Granda, um mikilvægi félagsins verður aldrei deilt. Hafið er óútreiknanlegt og svo virðist sem breytinga sé að vænta en í janúar sl. er vitnað á vefsíðu Landssambands smábátaeigenda í tölur Fiskistofu viðvíkjandi makrílveiðar á liðnu ári. Þar segir að athygli vöktu upplýsingar LS um makrílveiðar á síðasta ári. Þar kom fram að rúmur þriðjungur heildaraflans var veiddur utan íslenskrar lögsögu á alþjóðlegu hafsvæði NEAFC.

 

Á síðustu 4 árum, 2014-2017, hefur heildarafli í makríl verið um 164 þús. tonn. Mestur hluti þess afla hefur veiðst hér við land. Síðasta ár sker sig því úr þegar 35% heildaraflans veiddist utan landhelginnar. Þegar þessar tölur eru skoðaðar er ástæða til að velta því fyrir sér hvort makríllinn sé að yfirgefa okkur. Hvort minnkandi afli við landið séu vísbendingar um breytt göngumynstur?P2128084.JPG

 

Morgunblaðið er á svipuðum nótum en þar segir að muna minna mældist af makríl á hafsvæðinu við Ísland en verið hefur undanfarin ár, en þéttleikinn við Íslandsstrendur er sem fyrr mestur vestanmegin við landið. Þetta er á meðal niðurstaðna úr sameiginlegum uppsjávarleiðangri Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana sem farinn var á tímabilinu 30. júní til 06. ágúst sl.

 

Meginmarkmið leiðangursins var að meta magn uppsjávarfiska í Norðaustur-Atlantshafi að sumarlagi, en greint er frá niðurstöðum hans á vef Hafrannsóknastofnunar. Niðurstöðurnar voru kynntar Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) nýverið og eru þær, ásamt öðrum gögnum, notaðar við mat á stofnstærð makríls en ICES mun birta ráðgjöf um aflamark síldar, makríls og kolmunna 28. september nk.

 

Vísitala lífmassa makríls var metin 6,2 milljónir tonna, sem er 40% lækkun frá fyrra ári og 30% lægri en meðaltal síðustu fimm ára. Mestur þéttleiki makríls mældist í Noregshafi. Magn norsk-íslenskrar síldar lækkaði einnig og var vísitala lífmassa metin 4,5 milljónir tonna, sem er 24 % lækkun frá árinu 2017. Útbreiðsla stofnsins var svipuð og undanfarin ár fyrir fullorðna hluta stofnsins, þar sem mesti þéttleikinn var norður af Færeyjum og fyrir austan og norðan Ísland.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir