Innanlandsflug sem almenningssamgöngur til umræðu

03.10 2018 - Miðvikudagur

Íbúar landsbyggðanna eru almennt á einu máli um að innanlandsflugið sé dýrt og hafi líklega aldrei verið dýrara að fljúga. Um það er raunar deilt og hefur Vopnfirðingurinn Konráð Guðjónsson sýnt fram á í grein sem birtist í Austurglugganum nýverið að flugfargjöld hafi ekki verið lægri frá 2002 sem hlutfall ráðstöfunartekna. Umræðan á sér langa sögu, var málið m.a. til umræðu á nýafstöðnum aðalfundi SSA. Fyrir réttu ári fór fram málþing á Hótel Nordica og vitna má til skrifa Árna Gunnarssonar framkvæmdastjóra Air Iceland Connect um málið í Austurfrétt 27. maí 2016.

 

Samdráttur hefur verið í innanlandsfluginu um árabil en til samanburðar jókst kaupmáttur launa um 24% á tímabilinu 2008-2017 og íbúum landsins fjölgaði um 7%. Eigi að síður fækkaði farþegum í innanlandsflugi um 15% á sama tíma svo vitnað sé í Konráð. Á tímabilinu hækkaði innanlandsflugið um 68% meðan millilandaflugið hækkaði um 27%, þar sem samkeppnin ríkir. Árni segir í grein sinni að þrátt fyrir bættar samgöngur á láði hafi mikilvægi flugsins síst minnkað, hraðinn skipti æ meira máli. Veigamikill þáttur í þessu samhengi er að sjálfsögðu verðlag þjónustunnar. Jón Gunnarsson fyrrv. samgönguráðherra sagði á málþinginu innanlandsflugið vera okkar lestarkerfi, það væri hátækni atvinnugrein sem velti miklum fjárhæðum og skapaði störf um landið allt. Skipaður var starfshópur af ráðherra sem skila skyldi tillögum um hvernig ná megi hagkvæmari rekstri í innanlandsflugi.

 

Litið til síðustu ára þá hefur verðlag á innanlandsflugi haldist í hendur við almennt verðlag í landinu, segir Árni í grein sinni og bætir við: Ef horft er til nágrannalandanna í Skandinavíu þar sem að mörgu leyti er um sambærilega þjónustu að ræða þá kemur í ljós að á jafnlöngum flugleiðum í innanlandsflugi er verðlag í Noregi, Svíþjóð og Danmörku almennt mun hærra og í sumum tilfellum margfalt hærra en gengur og gerist hér á landi.Egilsstaðaflugvöllur 2.jpg

 

Gerði Árni að umtalsefni leiðir til lækkunar faragjalda en vék þó ekki að þeirri sem helst er rædd nú og var til umræðu á málþinginu og aðalfundi SSA, Air Discount Scheme for the Highlands and Islands, ADS, eða Skoska leiðin. Á málþinginu var Rachel Hunter, svæðisstjóri Hjaltlandseyja, meðal frummælenda. Kom fram í máli hennar að skoska ríkið niðurgreiði þessa þjónustu til um 70 þúsund notenda á ári og er kostnaðurinn um 16-17 þús. kr. á hvern farþega.

 

Frá því verkefnið var sett á fót hefur farþegum fjölgað á öllum leiðum þar sem þetta er í gildi. Hún sagði einnig að 13% flugferðanna hefðu ekki verið farnar ef ADS hefði ekki notið við. „Fólk flýgur oftar því það er ódýrara,“ sagði hún. Verkefnið hefði haft mikil jákvæð áhrif á lífskjör fólks sem búi á afskekktum svæðum í Skotlandi og hafi hjálpað til við að halda í og laða að ungt fólk. Hún benti hins vegar á að þetta væri ekki töfralausn á vanda afskekktra byggða.

 

Ívar Ingimarsson ferðaþjónustubóndi sagði það kostaði fjögurra manna fjölskyldu 200 þúsund krónur að gera sér ferð suður til Reykjavíkur frá Egilsstöðum yfir helgi ef flugleiðin væri valin. Hann sagði að með lægri fjargjöldum myndu lífsgæði batna með auknu aðgengi að heilbrigðisþjónustu og félagslegum viðburðum. Hann telur að íbúðaverð á Austfjörðum myndi snarhækka ef til skosku leiðarinnar kæmi. Hann sagði það „rangt og niðurlægjandi“ að tala um niðurgreiðslu á innanlandsflugi í þessu sambandi. Um væri að ræða mótvægisaðgerðir sem væru til þess fallnar að vega upp á móti skekkju í búsetu.

 

Friðbjörg Matthíasdóttir í Vesturbyggð kallaði eftir því, í sínu erindi, að stjórnvöld myndu ganga lengra til að gera búsetu á landsbyggðinni að samkeppnishæfum valkosti. Hún sagði að flug á sanngjörnu verði fyrir íbúa jaðarbyggða myndi stórbæta lífskjör.

 

Jóna Árný framkvæmdastjóri Austurbrúar sagði í ávarpi sínu að skoska leiðin yrði viðbót við þann stuðning sem innanlandsflugið nyti nú þegar. Áætlaður kostnaður við innleiðingu kerfisins væri á bilinu 600 til 800 milljónir króna á ári.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir