Þverárvirkjun til umræðu

05.10 2018 - Föstudagur

Á fundi sveitarstjórnar í gær lá fyrir matsáætlunartillaga vegna virkjunar í Þverá í Vopnafirði en um málið var m.a. fjallað í Austurfrétt þann 02. október sl. Þar kemur fram að skoða þurfi möguleg áhrif virkjunar Þverár á uppeldisstöðvar fyrir laxfiska sem veiðast í Hofsá. Gert er ráð fyrir tveggja hektara uppistöðulóni og vatni verði miðlað um niðurgrafna pípu niður í stöðvarhús á láglendi. Að ósk Skipulagsstofnunar hafði sveitarstjórn unnið umsögn um tillögu að matsáætlun vegna hinnar fyrirhuguðu virkjunar og lá fyrir fundi.

 

Vill sveitarfélagið koma eftirfarandi á framfæri:

 

  • Hvaða áhrif hefur það á Hofsá ef uppeldisstöðvum í Þverá er raskað eins og þarna er gert ráð fyrir að rannsaka?
  • Hvaða áhrif hefur framburður af röskuðum svæðum við framkvæmdir og eftir að þeim líkur á lit, búsetuskilyrði laxins og lífríkisins í ánni o.s.frv. Hversu mikil verða þessi áhrif, hvað má áætla að þetta gerist oft og hversu mikil verða óhreinindin?
  • Hvað má búast við að óhreinindin vegna rofs af röskuðum svæðum við Þverá eigi eftir að lita Hofsá í langan tíma?
  • Þarna er því lýst að skola eigi út úr uppistöðulóninu um botnrás. Hver eru áhrifin af slíku fyrir Hofsá? Er skynsamlegra að hreinsa lónið með öðrum hætti?
  • Er hægt að nýta framburð annars staðar sem jarðvegsbætandi eða á umhverfisvænan hátt?

 

Þverá 3.jpegÍ tillögunni kemur fram að haft verði samráð við sveitarfélagið um skipulagsbreytingar vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar þegar nær dregur. Sveitarfélagið mun taka erindi framkvæmdaaðilans þar að lútandi til meðferðar þegar þau berast og fjalla um þau í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, segir ennfremur í umsögninni sem undirrituð er af sveitarstjóra.

 

Til upplýsinga er Þverá 19 km löng dragá með upptök í Smjörfjöllum en þaðan fellur hún um myndarlegt gljúfur niður í Hofsá í Vopnafirði. Gert er ráð fyrir að miðlunarlónið verði í 260 metra hæð og vatn úr því leitt 5,4 km leið í niðurgrafinni leiðslu að stöðvarhúsi rétt við þjóðveginn. Með því fæst um 200 metra fallhæð.

 

Reist verður 80 metra breið og allt að 20 metra há stífla sem myndar miðlunarlón sem verður um tveir hektarar að stærð. Gert er ráð fyrir að helmingur þess verði í farvegi Þverár. Frumhönnun virkjunarinnar stendur yfir en vænst er að hún geti framleitt 3-6 MW af rafmagni.

 

Stöðvarhúsið verður 120 fermetrar að flatarmáli og átta metrar á hæð. Reynt verður að fella það sem best inn í landslagið. Út frá því verður 200 metra langur og 12 metra breiður frárennslisskurður. Rafmagnið verður tengt með 11 km löngum jarðstreng inn á dreifikerfi RARIK á Vopnafirði.

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir