Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2018

10.10 2018 - Miðvikudagur

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga fer fram dagana 11. og 12. október nk. Til ráðstefnunar mæta fulltrúar hinna 74ra sveitarfélaga í landinu en ráðstefnan er stærsti einstaki vettvangur sambandsins sem árlega er haldinn. Þátttakendur hafa verið yfir 400 á sl. árum en til samkomunnar eru allir velkomnir, ekki einungis kjörnir fulltrúar og starfsmenn sveitarfélaga heldur allir áhugamenn um sveitarstjórnarmál. Fleiri komast þó ekki að nú en þeir sem þegar hafa tilkynnt þátttöku sína því uppselt er á viðburðinn.

 

Aldís Hafsteinsdóttir nýkjörinn formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, fyrst kvenna, mun setja fjármálaráðstefnuna en meginþema hennar er að þessu sinni verkaskipting ríkis og sveitarfélaga ásamt þeim gráu svæðum sem óskýr verkaskipting leiðir til í opinberri þjónustu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarpar einnig ráðstefnuna og Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ og Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins, rýna stöðuna í efnahagsmálum og horfur til næstu ára í afkomu sveitarfélaga. Fleiri áhugaverð ávörp verða flutt skv. dagskrá ráðstefnunnar.

 

Fjármálaráðstefnunni lýkur svo á fjórum málstofum, sem fram fara fyrir hádegi næsta dag og fjallar hver um afmarkaðan þátt í rekstri sveitarfélaga eða fjármál, fræðslumál, velferðarmál og uppbyggingu og innviði.

 

Fjarmálaráðstefna Sís.jpgÍ þessu samhengi fer vel á að fjalla aðeins um fjármál sveitarfélaga. Sveitarstjórn ber ábyrgð á fjárhag sveitarfélagsins. Henni ber að tryggja að ákvæðum laga um fjármál sveitarfélaga sé fylgt. Einvörðungu sveitarstjórn getur tekið ákvarðanir um málefni sem varða verulega fjármál sveitarfélagsins. Til slíkra málefna teljast m.a. eftirtalin atriði:

 

  1. staðfesting ársreiknings,
  2. fjárhagsáætlun næstkomandi árs,
  3. fjárhagsáætlun til fjögurra ára,
  4. viðauki við fjárhagsáætlanir,
  5. lán, ábyrgðir eða aðrar fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélags,
  6. sala eigna sveitarfélagsins og annarra réttinda þess,
  7. álagning skatta og gjalda,
  8. ráðning eða uppsögn endurskoðanda.

 

Reikningsár sveitarfélaga er almanaksárið. Sveitarfélög, stofnanir þeirra og fyrirtæki eru bókhaldsskyld og gilda ákvæði laga um bókhald og laga um ársreikninga, svo og aðrar góðar bókhalds- og reikningsskilavenjur um bókhald og reikningsskil sveitarfélaga. Bókhaldi sveitarfélags skal hagað á skýran og aðgengilegan hátt og skulu reikningsskil gefa glögga mynd af rekstri, efnahag og sjóðstreymi.

 

Starfsemi sveitarfélaga skiptist í A-hluta og B-hluta sem saman mynda samstæðu sveitarfélagsins. A-hluti merkir aðalsjóð sveitarfélags auk annarra sjóða og stofnana sem sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum. Undir B-hluta falla stofnanir sveitarfélags, fyrirtæki og aðrar rekstrareiningar sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélags og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.

 

Sveitarfélögum er heimilt eftir því sem leiðir af viðkomandi lagareglum að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem er bundið í rekstri stofnana þeirra og fyrirtækja. Sveitarstjórn ber að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé ávallt þannig hagað að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum. Framangreinda skyldu skal sveitarstjórn fullnægja m.a. með því að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum, og heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum.

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir