Síldveiðar ganga vel

12.10 2018 - Föstudagur

Á fundi strandríkja í desember sl. náðist samkomulag um veiðar norsk-íslenskrar síldar á árinu 2018. Ekki náðist samkomulag um skiptingu heildarafla milli ríkja en aðilar komu sér saman um að miða sínar aflaheimildir við 435 þúsund tonna heildaraflamark. Vertíðin fór vel af stað og þessa dagana veiðist stór og falleg síld, mikið er til og hún yfir 400 grömm.

 

Á heimasíðu HB Granda hf. er frá því greint að mjög góð síldveiði sé djúpt út af Austfjörðum og haft eftir Theódór Þórðarsyni skipstjóra á Venusi NS að „Það er búin að vera mjög góð síldveiði frá því að veiðarnar hófust. Það er mikið að sjá og það virðist vera mikið af síld á ferðinni.“ Þá var búið að ganga frá síðasta holinu og ferðin til heimahafnar á Vopnafirði var nýhafin.

 

Að sögn Theódórs var leiðinlegt veður þá þrjá daga sem skipið var á veiðum. Stöðug kvika og þegar verst lét hörkubræla. „Við tókum fimm hol og aflinn er rúmlega 1.000 tonn. Síldin hagar sér þannig að hún dýpkar á sér yfir daginn. Fer jafnvel niður fyrir 200 faðma. Svo þegar aðeins fer að skyggja kemur hún upp, allt upp á 30 metra dýpi, og þá er þægilegast fyrir okkur að eiga við hana,“ sagði Theódór en að hans sögn er síldin stór og falleg, 380 til 400 grömm að þyngd, og aukaafli er enginn. Kvað Theódór skipið vera í þriðja sídartúrnum og síldin hafi haldið sig utar síðustu dagana, voru um 130 mílur í Norðfjarðarhorn þegar við hann var rætt.venusogvikingur_ (1).jpg

 

Á áðurnefndum fundi kom fram að ráðgjöf ICES, Alþjóðahafrannsóknaráðsins, byggð á aflareglu frá árinu 1999 hljóðaði upp á 384 þúsund tonn og var afstaða Íslands að við það aflamark yrði miðað. Ekki náðist samkomulag um slíkt og því var ákvörðunin að heildaraflamarkið yrði um 50 þúsund tonnum hærra. Ísland féllst á þessa niðurstöðu til að samstaða næðist um aflamarkið og í ljósi þess að aflinn á árinu 2018 verður engu að síður innan varúðarmarka sem ICES hefur reiknað út.

 

Miðað við veiðar íslensku skipanna má reikna með að tiltölulega skamman tíma taki að veiða upp í þann kvóta sem Íslendingum er úthlutaður að þessu sinni. Samkvæmt fréttum ríkir óvissa um framhaldið en útgerðir loðnuskipa eru farnar að undirbúa loðnuleit í kjölfar tilkynningar frá Hafrannsóknastofnun um að ekki verði gefinn út upphafskvóti miðað við niðurstöður úr nýlegum rannsóknarleiðangri. Svo virðist sem útgerðir stefni inn í loðnuvertíð í óvissu eina ferðina enn. Mörg undanfarin haust hafi lítið fundist af loðnu í haustleiðangrum Hafró. Loðnan hafi síðan birst skyndilega, seinna en venjan var áður og á óhefðbundnum svæðum.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir