Kuldaboli 2018

15.10 2018 - Mánudagur

Um helgina fór fram ungmennahátíðin Kuldaboli, samstarfsverkefni félagsmiðstöðva í Fjarðabyggð. Eins og vanalega var unglingum úr 8. – 10. bekk af öllu Austurlandi boðin þátttaka og héðan frá Vopnafirði fóru 19 ungmenni í fylgd Þórhildar Sigurðardóttur forstöðumanns félagsmiðstöðvarinnar Drekans. Aðalmarkmiðið með Kuldabola er að krakkar kynnist innbyrðis, prófi nýjar tómstundir og skemmti sér saman á heilbrigðan máta. Miðpunktur hátíðarinnar er Fjarðabyggðahöllin og þeir sem reynt hafa vita að nafngiftin Kuldaboli stendur fullkomlega undir merkjum.

 

Smiðjur eru ávallt í boði og sýna krakkarnir þeim mikinn áhuga, fóru þær fram víðs vegar um Reyðarfjarðarbæ. Að þessu sinni var boðið upp á fræðslusmiðju, fræðslu um lyf í ljósi umræðunnar sem fram fer í samfélaginu, hlussubolta, Nerf-stríð og síðan stóð val á milli karate og listasmiðju sem Karna stýrði. Ennfremur stóð krökkunum til boða Bolasvar, sbr. barsvar, og stóð þátttakendum til boða „kaffi“ og með því. Að annasömum degi loknum var boðið upp á risahamborgaraveislu og mun grillgengið hafa staðið sig frábærlega og um 300 ungmenni og starfsmenn fengu sína magafylli.Kuldaboli 2.jpg

 

Gamanið hélt svo áfram um kvöldið þar sem tendraður var varðeldur í ágætis veðri á lóð Grunnskóla Reyðarfjarðar. Þar sungu ungmennin við snarkandi eldinn. Síðan var haldið í Fjarðabyggðarhöllina á kvöldskemmtun með Jóa og Króla en ungu mennirnir njóta mikilla vinsælda meðal íslenskra ungmenna sem kunnugt er. Stuðið hélt svo áfram inn í nóttina. Voru ungmennin til fyrirmyndar og gleði á hverju andliti. Slökkt var á tónlistinni klukkan tvö. Fóru sumir þá strax í háttinn en flestir héldu áfram að spjalla langt fram undir morgun.

 

Samkvæmt Þórhildi tókst hátíðin heilt yfir ljómandi vel og gleðin skein úr andlitum hátíðargesta sem er besti mælikvarðinn á hversu vel tókst til. Krakkarnir eru stöðugt að og njóta hverrar stundar hafandi eignast fjölda nýrra vina. Það munu þó vissulega hafa verið þreytt ungmenni sem komu heim til sín á sunnudeginum. Starfsfólk félagsmiðstöðva Fjarðabyggðar standa að hátíðinni en njóta samstarfs aðkominna kollega sinna og unnu gott verk ásamt fjölda sjálboðaliða. Það léttir alla vinnu framkoma krakkanna sem eru sjálfum sér og hátíðinni til mikils sóma.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir