Vinavika Vopnfirðinga

16.10 2018 - Þriðjudagur

Vinavikan hefst í dag kl. 15  með formlegum hætti er gengin verður Vinaganga frá Vopnafjarðarskóla að Vopnafjarðarkirkju. Gengið er í nafni kærleika og vináttu. Meðal þátttakenda að þessu sinni er frú Sólveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup á Hólum og kemur til með að njóta kökuhlaðborðs í safnaðarheimilinu eins og aðrir þátttakendur að göngu lokinni. Eru allir hvattir til þátttöku í gönguna en Vinavikan í ár er hin 9unda í röðinni.

 

Á morgun er kærleiksmaraþon en þá ganga unglingarnir í hús, færa íbúum glaðning og bjóða hverjum sem þiggja vill góðverk. Tekin eru dæmi um góðverk í auglýsingu viðburðar:

 

  • Fara út með ruslið
  • Raka saman laufi
  • Taka hundinn með í göngutúrinn
  • Brjóta saman þvottinn
  • Ryksuga
  • Vaska upp
  • Eða eitthvað annað sem íbúum dettur í hug!

 

Aðstoðin er að sjálfsögðu ókeypis og fólk hvatt til að taka sér frí frá heimilisverkunum!

 

Á fimmtudag 18. er blásið til leikjaveislu á túninu milli Lónabrautar og Fagrahjalla. 1.-3. bekkur ríður á vaðið kl. 15 og eru auk heldur elstu krakkarnir í leikskólanum velkomin með þeim. 4.-7. bekkur skemmtir sér frá og með kl. 16 og kl. 17 er KUBBkeppni í hverri fjölskyldur eru hvattar til þátttöku. Annast sr. Þuríður Björg skráningu í síma 849-4911. Í Kauptúni verða happdrættismiðar til sölu milli kl. 16 og 18.Andlitsmálun.jpg

 

Föstudaginn 19. er sundlaugarpartí milli kl. 20-22. Þar verður fjörið í fyrirrúmi en aðgangseyrir er kr. 500 og rennur óskiptur í ferðasjóð á Landsmót ÆSKÞ. Til sölu eru sk. Glowsticks á 300 kr. Á laugardag er Vinabíó í Miklagarði og hefst kl. 14. Sýnd verður myndin Draumur (Charming) og kostar kr. 500. Að sjálfsögðu verður til sölu popp, djús og sælgæti (í hófi 😊) og rennur ágóði í ferðasjóðinn.

 

Á sunnudag 21. október, á lokadegi Vinaviku er Vinamessa í Vopnafjarðarkirkju og hefst kl. 14. Messan er fjölskyldustund í skreyttri Vopnafjarðarkirkju sem enginn ætti að missa af. Kirkjukórinn syngur létta sálma og krakkarnir taka þátt í messunni. Að messu lokinni er vöfflukaffi í safnaðarheimilinu – og að sjálfsögðu eru allir velkomnir á báða viðburðina, messuna og kaffisamsætið.

Myndirnar eru frá Vinaviku sl. árs.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir