Vinaganga

17.10 2018 - Miðvikudagur

Annar dagur í Vinaviku er í dag en í gær fjölmenntu Vopnfirðingar í Vinagöngu, flestir voru ungir að árum en þeir voru nokkrir eldri sem slógust í för og tóku þátt í hjartagjörð við göngulok. Kaffi var í boði í framhaldi af útiveru. Fyrir 4 árum lét sr. Stefán Már þess getið að Vinagangan væri stærsta skipulagða gangan á Íslandi í október það árið og eigum við ekki bara að trúa því að það eigi við nú. Sem fyrr varðar mestu að verið er að minna á vináttuna og gildi þess að standa saman.

 

Gengið var frá Vopnafjarðarskóla til suðurs Lónabraut/Miðbraut með viðkomu á Miklagarðslóð þar sem sr. Þuríður Björg flaggaði fána Vinaviku. Þá var haldið niður á flötina sunnan plans Kauptúns/Kaupvangs og þangað kominn myndaði hópurinn hjarta. Af svölum Kauptúns auðnaðist lítil myndavél tíðindamanns vart að mynd veglegt hjartað en tilgangurinn helgar meðalið.

 

Að lokinni hjartagjörð var haldið að safnaðarheimilinu og eftir flöggun Vinafána við kirkjuna var í hús haldið og myndarlegu kökuhlaðborðinu var gerð góð skil. Á skömmum tíma voru gestir komnir með kökubita á disk, kaffi, kókómjólk eða djús í bolla/glas. Hið eina sem vantaði var fjöldasöngurinn þar sem Vinasöngurinn var sunginn. Hefur hann kannski ekki enn verið saminn?

Meðfylgjandi eru myndir af Vinagöngunni.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir