Vinamessa

22.10 2018 - Mánudagur

Viku vina lauk í gær með messu og vöfflukaffi að henni lokinni. Að baki er þá níunda Vinavikan og þau sátt sem að málum koma, vikan hefur öðlast fastan sess í félags- og menningarlífi Vopnfirðinga. Því er ekki að leyna að dregið hefur úr þátttökunni. Þannig var færra í messu gærdagsins en sl. ár, færra í fyrra en árið á undan. Þeir sem ekki hafa reynt ættu að hafa í huga messu næsta árs en Vinavikumessur hafa yfir sér létt yfirbragð og er ágætis tilbreyting frá hefðbundinni messugjörð.

 

Þrátt fyrir framangreint er engin ástæða til þess að örvænta, Vinavikan er einstök og hugmyndin að baki vikunnar jafn gild og í upphafi. Full ástæða er til stolts og horfa björtum augum til framtíðar. Svo voru viðburðir eins og í sundlaugarpartí og Vinabíó sem vel voru sóttir en á hvorn mætti um 10% íbúa sveitarfélagsins.

 

Sr. Þuríður Björg sagði vikuna hafa gengið vel, hún tekur breytingum á milli ára sem telja verður eðlilegt. Í hugvekju sinni greindi Þuríður frá samskiptum við ungmennin sem sum hver töldu hreint ekki auðvelt að vera allra vinur og víst er það svo að það getur reynst okkur erfitt. Á hinn bóginn er það tilraunarinnar virði að láta á það reyna því reyni maður ekki gerist ekkert. Almennt hafa krakkarnir ánægju af þátttökunni og eru reiðubúin til að leggja á sig heilmikla vinnu. 8 fermingarbörn tóku þátt í messunni en svo vill til að öll eru fermingarbörnin stúlkur.

 

Að lokinni messu var mannskapnum boðið í safnaðarheimilið, í vöfflukaffi í boði ungmenna. Kaffið þáði bróðurpartur gesta sem sat góða stund og spjallaði vitandi að maður er manns gaman líkt og segir í Eddukvæðum. Og á líklega aldrei betur við en í Vinaviku.

 

Meðfylgjandi eru myndir úr messu.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir