Haustgleði yngri flokka Einherja

26.10 2018 - Föstudagur

Ungmennafélagið Einherji hélt haustgleði yngri flokka félagsins á Hótel Tanga í gær og voru saman komin um 50 ungmenni að þessu tilefni. Að vanda var stemningin góð meðal hinna ungu liðsmanna sem að hafandi viðurkenningu um háls og myndatöku þáðu krakkarnir pítsu og franskar. Í upphafi viðburðar gerði formaður að umtalsefni mikilvægi félagsins í vopnfirsku samfélagi en leiða má að líkum að bróðurpartur nemenda Vopnafjarðarskóla komi að starfi félagsins, misvirk eins og gengur. Einherji er á landsvísu lítið félag en stórt í nærsamfélagi okkar en sem dæmi má áætla að leiki á vegum félagsins á sumrinu mæti eigi færri en 3000 manns eða hátt í 5 faldur fjöldi íbúa sveitarfélagsins.

 

Þau sem starfað hafa fyrir Einherja um árabil er vel kunnugt um það orðspor sem að félaginu fer en framangreint endurspeglast í viðhorfi fólks innan íþróttahreyfingarinnar, félagið nýtur virðingar. Það þykir hreinlega með ólíkindum að jafn lítið félag skuli ár eftir ár tefla fram meistaraflokkum karla og kvenna en til samanburðar eru 3 félög, tvö þeirra töluvert stærri en Einherji, í samstarfi í meistaraflokki kvenna á Austurlandi. Það er auðvitað engan veginn sjálfgefið að svona verði þetta um ókomin ár, lítið má út af bera þegar hóparnir eru litlir en með viljan og einurðina að vopni hefur félaginu auðnast ætlunarverk sitt. Rétt eins og fram kom í orðum formanns í gær er það einmitt þessi hópur sem var samankominn í sal Hótels Tanga sem framtíð félagsins byggir á og auðnist því að halda þeim virkum er framtíð Einherja björt.

 

Meðfylgjandi eru myndir af haustgleðinni.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir